“Það eru mörg fræg dæmi um að við gleypum þetta allt hrátt. Ég tel því að það þurfi að fara fram alvöru umræða og allsherjar úttekt á stöðu mála í dag miðað við þær forsendur sem menn gáfu sér þegar við gengum í EES,” segir Atli Gíslason þingmaður í samtali við Morgunblaðið laugardaginn 7. júlí. Alti segist vera hættur að taka þátt í innleiðingu laga og reglna í gegnum EES-samninginn; greiði þeim ekki atkvæði:

“Við fáum eina og eina tilskipun í einu og málin eru ekki skoðuð heildstætt. Við höfum um það bil mánuð eftir að tilskipanirnar koma til EFTA og síðan eru málin ekkert skoðuð. Veittur er frestur til að gera athugasemdir og fyrirvara.”

Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessorar við HÍ, hafa lýst yfir efasemdum um að reglugerð um losunarkerfi ESB standist stjórnarskrá, en álitsgerð þeirra var aldrei lögð fyrir þingnefndir sem um málið fjalla. Á síðasta degi fyrir sumarleyfi var frumvarp um loftslagsmál afgreitt sem lög frá Alþingi. Í frétt í Morgunblaðinu segir að þótt ekki sé kveðið á um reglugerðina í frumvarpinu skapi samþykkt laganna umgjörð sem reglugerðin fellur að. Má hér nefna að í greinargerð umhverfisráðuneytisins segir að annað meginmarkmið loftslagslaganna sé “að innleiða reglur um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda sem eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið”. Álitsgerð lagaprófessoranna var aldrei lögð fyrir þær þingnefndir sem um málið fjalla. Reglugerðin mun því að óbreyttu koma til framkvæmda hér á landi.

Atli Gíslason, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé “forkastanlegt og lítilsvirðing við Alþingi”, að álitsgerðin hafi ekki verið kynnt þingmönnum. Viðkomandi ráðherrum hafi verið fullkunnugt um að málið var til meðferðar í þinginu og að það var afgreitt þaðan eftir að álitsgerðin kom fram.

“Ég er sjálfur hættur að taka þátt í innleiðingum í gegnum EES-samninginn á þingi; greiði þeim ekki atkvæði. Ég hef ýmist setið hjá eða greitt atkvæði gegn þeim vegna þess að ég tel að í þeim felist framsal á löggjafarvaldi. Þessum innleiðingum hefur fjölgað mjög eftir að ESB-umsóknin var lögð fram.

Við getum ekki hróflað við neinu á þinginu. Til okkar koma tilskipanir sem þingið tekur kannski engan þátt í. Ég nefni sem dæmi matvælalöggjöfina. Við þingmenn vildum undanskilja lifandi dýr og hrátt kjöt af heilbrigðisástæðum. Það var mikil andstaða við það þrátt fyrir að við hefðum stuðning úr 13. grein EES-samningsins. Það má ekki breyta neinu eða fara ofan í þær gerðir og tilskipanir sem koma til okkar.

Þá finnst mér löggjafarvaldið vera orðið til málamynda. Það var fjallað um það þegar EES-samningurinn var samþykktur að það hefði þurft að breyta stjórnarskránni. Það voru ýmsir þeirrar skoðunar og ég er þeirrar skoðunar. Þetta er valdframsal. Framsal á fullveldi og löggjafarvaldi. Það hefur ekki verið látið reyna á það en ég er eindregið sammála Stefáni Má og Björgu.”

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur undir gagnrýni Atla:

“Mér finnst mjög óeðlilegt að þess skyldi aldrei vera getið við umfjöllun um loftslagsfrumvarpið á þingi að á nákvæmlega sama tíma væri unnið að lögfræðilegri álitsgerð fyrir ríkisstjórnina um stjórnskipuleg álitamál sem tengjast aðild okkar að viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir. Höfuðrökin fyrir því að afgreiða frumvarpið í miklum flýti nú í júní voru einmitt á þá leið að það væri bráðnauðsynlegt svo íslensk fyrirtæki gætu orðið aðilar að þessu viðskiptakerfi um næstu áramót. Nú virðist ljóst að sú aðlögun, sem fjallað var um í frumvarpinu er ekki fullnægjandi, heldur er af hálfu ESB krafist enn frekari aðlögunar, sem mun að óbreyttu fela í sér óheimilt fullveldisframsal.”

Í pistli hér á T24 er bent á að áhrif Evrópusambandsins á íslenska laga- og reglugerðarsetningu sé orðin mikil og margir hafa bent á að slíkt kunni að ganga gegn stjórnarskrá. Frá október og fram að sumarfríi þingmanna lagði ríkisstjórnin fram 49 mál – frumvörp og þingsályktunartillögur – þar sem vitnað er til EES-reglna eða ákvarðana EES-nefndarinnar. Tólf frumvörp voru samþykkt sem lög og átján þingsályktunartillögur náðu fram að ganga.