Fremur auðvelt var að átta sig á íslensku viðskiptalífi á árum áður. Þó það sé mikil einföldun að halda því fram að það hafi skipst upp í tvær fylkingar, er sanngjarnt að segja að ákveðið viðskiptalegt og pólitískt jafnvægi hafi ríkt á milli Sambandsins og einkaframtaksins. Þetta jafnvægi var ekki lengur  fyrir hendi þegar Valdaflokkir riðlast kom úr átið 1999, enda Sambandið liðið undir lok þó sterk fyrirtæki hafi risið upp á rústum þess, sum að vísu tímabundið. Einkafyrirtækin voru heldur ekki einsleitur eða samstilltur hópur heldur fyrirtæki í harðri samkeppni. Eftir fall Sambandsins hélt togstreita og valdabarátta áfram milli rótgróinna einkafyrirtækja og gömlu Sambandsfyrirtækjanna sem lifðu af. Fjölmiðlar töluðu yfirleitt um baráttuna milli Kolkrabbans og Smokkfisksins. Þessar gömlu valdablokkir riðluðust og heyrðu brátt sögunni til. Ekki vegna þess að forystumenn þeirra settust niður og sömdu um „vopnahlé” heldur vegna ytri aðstæðna og þar réð enginn ferðinni.

Í bókinni er því haldið fram að þrír þættir hafi öðrum fremur orðið til þess að gömlu valdablokkirnar hafa smátt og smátt molnað niður. Markaðsvæðing sjávarútvegsins með innleiðingu kvótakerfisins með frjálsu framsali aflaheimilda gerði útsjónarsömum útgerðarmönnum kleift að byggja upp glæsileg fyrirtæki sem höfðu fjárhagslega burði til að taka þátt í atvinnulífinu á flestum sviðum. Í stað þess að vera upp á opinbera fyrirgreiðslu og velvilja birgja komin urðu til öflug og sjálfstæð fyrirtæki í sjávarútvegi. Aukið frelsi á fjármálamarkaði og þá ekki síst þróun hlutabréfamarkaðar gerði fyrirtækjum, fjárfestingarfélögum, lífeyrissjóðum og einstaklingum kleift að taka beinan þátt í atvinnulífinu og auðgast verulega. Hlutabréfamarkaðurinn og frelsi á fjármálamarkaði opnaði auk þess nýja og áður óþekkta möguleika fyrirtækja til fjármögnunar – þau þurftu ekki lengur að ganga með betlistaf í hendi á milli stjórnmálamanna og valdsherra einkaframtaksins eða Sambandsins.

Þessi mikla markaðsvæðing sjávarútvegs og fjármálakerfisins var möguleg vegna þess að skynsamlega var haldið á efnahagsmálum. Seðlabankinn fylgdi aðhaldssamri stefnu í peningamálum á sama tíma og meiri agi hefur komist á fjármál ríkissjóðs þó enn hafi víða verið pottur brotinn. Óðaverðbólga fyrri ára sem gerði ókleift að reka fyrirtæki með skynsamlegum hætti, var aðeins slæm minning.

Svo virtist að heilladísir hafi vakað yfir íslenskum verðbréfamarkaði á árunum fyrir 1999 komið í veg fyrir að afleiðingar mistaka og jafnvel vítaverðra viðskiptahátta hafi mikil áhrif á tiltrú almennings og fjárfesta á verðbréfum. Í Valdablokkum riðjast eru nefnd dæmi um slíka viðskiptahætti. Þá eru svokallaðir talnaleikir fyrirtækja, þar sem eigið fé er útblásið, gagnrýnir harðlega og því haldið fram að talnaleikir af þessu tagi séu ávísun á vandræði í framtíðinni. Óskiljanlegt sé að endurskoðendur hafi undirritað ársreikninga án athugasemda þegar loftfimleikar af þessu tagi eru gerðir. Að ekki sé minnst á allan þann fjölda sérfræðinga sem vinna hjá verðbréfafyrirtækjum og bönkum sem létu þetta átölulaust og raunar nýttu sér talnaleikina í útboðslýsingum til að gera hlutabréf viðkomandi fyrirtækis enn áhugaverðari fyrir fjárfesta. Síðar kom í ljós að þessi gagnrýni átti fullan rétt á sér.