Í Síðustu vörninni er sett fram hörð gagnrýni á íslenska dómskerfið og því haldið fram að dómar Héraðsdóms og Hæstaréttar í Baugsmálum hafi reynst Íslendingum dýrkeyptir og haft alvarlegar afleiðingar. Skiptir þá engu sekt eða sakleysi þeirra sem voru ákærðir. Dómstólar komu sér hjá því að taka efnislega afstöðu til ákæruliða og beittu langsóttum lögskýringum. Viðskiptalífinu var gefið til kynna að aðrar reglur væru í gildi gagnvart því en öðrum.

Í Síðustu vörninni er því haldið fram að fræðimenn og starfandi lögmenn hafi brugðist skyldu sinni. Ástæðurnar eru sagðar einfaldar. Lögmenn hafi áhyggjur af því að hörð gagnrýni þeirra á úrskurði dómstóla geti komið niður á umbjóðendum þeirra í framtíðinni. Og hins vegar hafi fræðimenn og starfandi lögmenn, sem hafa hug á því að sækjast eftir sæti við Hæstarétt, það í huga að gagnrýni geti haft áhrif á möguleika þeirra til að ná ráðningu.

Þegar héraðsdómur ákvað að vísa öllum upphaflegu ákærunum frá dómi, ekki síst á þeim grunni að ákæruliðir væru óskýrir, fögnuðu margir. Sú gleði var byggð á misskilningi. Með frávísun gafst ákæruvaldinu tækifæri til að gefa út nýjar ákærur. Á meðan urðu þeir sem sættu ákæru að bíða í eins konar lögfræðilegu tómarúmi. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu erfitt það hlýtur að vera fyrir þann sem telur sig saklausan að bíða eftir því að nafn hans sé hreinsað. Því er haldið fram að hagur þeirra sem sættu ákæru hefði verið betur tryggður ef dómstólar hefðu tekið upphaflegu ákæruliðina fjörutíu til efnislegrar meðferðar og látið hina ákærðu njóta vafans sem fólgin var í óljósum málatilbúnaði ákæruvaldsins

Í bókinni er skipulag Hæstaréttar gagnrýnt harðlega og þó sérstaklega hvernig staðið er að skipun dómara. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að dómstólar láti undan almenningsálitinu og í því andrúmslofti sem nú er í þjóðfélaginu. Sú hætta virðist vera raunveruleg að hagsmunir sakborninga verði fyrir borð bornir. Veruleg hætta er á að dómstólar hafi ekki bolmagn til að standa gegn háværri kröfu um að ákveðnir einstaklingar verði dregnir til ábyrgðar og dæmdir.

Fórnarlömbin verða ekki aðeins þeir sem verða dæmdir heldur allir Íslendingar. Þegar og ef dómstólar láta undan þrýstingi almenningsálitsins er réttarríkinu fórnað.