FL Group – Stoðir – var fremst í flokki íslenskrar útrásar. Félagið varð eitt fyrsta fórnarlamb alþjóðlegrar fjármálakreppu. Ekki vegna kreppunnar heldur vegna þess að forráðamenn félagsins höfðu ekki reynt að búa félagið undir hina mögru tíma. Aldrei var reynt að búa í haginn fyrir framtíðina og því var ekki borð fyrir báru þegar það gaf á bátinn. Dregin er upp fremur dökk mynd og því haldið fram að saga FL Group sé dapurlegur vitnisburður um framgöngu íslenskra viðskiptajöfra á undanförnum árum og áfellisdómur yfir sinnulausum almennum hluthöfum. Ákafinn við að byggja upp viðskiptaveldi og verja fjárhagslega hagsmuni sinna nánustu varð skynseminni yfirsterkari. Samþætting fjárhagslegra hagsmuna og samtrygging var höfð að leiðarljósi á kostnað arðsemi. Stefnu- og ístöðuleysi, sem kristallaðist í nafnabreytingum, stöðugum skipulagsbreytingum og sundraðri fjárfestingastefnu, einkenndi alla starfsemi fyrirtækisins.

Varpað er ljósi á dómgreindarleysi greiningardeilda bankanna og hversu veikburða íslenskir fjölmiðlar hafa verið gagnvart ráðandi öflum í viðskiptalífinu.