Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa ratað í villigötur og almennir starfsmenn ríkisfjölmiðilsins taka út kostnaðinn. Gagnrýni á rekstur og stefnu Ríkisútvarpsins, er svarað með hortugheitum af þeim sem bera daglega ábyrgð eða reynt er að þegja hana í hel. Skiptir engu hvort gagnrýnin er málefnaleg, réttmæt, harðorð eða óvægin og á stundum óréttmæt. Á sama tíma heyrist ekkert frá stjórn ríkisfjölmiðilsins.

Um það verður ekki deilt að Ríkisútvarpið býr við mikil forréttindi á fjölmiðlamarkaði. Lögboðnar áskriftatekjur – þjónustutekjur samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið – veita ríkismiðlinum forskot á einkaaðila sem fáum kæmi til hugar að veita öðrum ríkisfyrirtækjum í samkeppni við einkaaðila. „Nauðungargjöldin“ líkt og núverandi útvarpsstjóri kallaði skylduáskriftina þegar hann sat við borð frjálsra fjölmiðla, hafa orðið til þess að forráðamenn Ríkisútvarpsins nálgast gagnrýni á með öðrum hætti en þeir sem þurfa að taka tillit til viðskiptavina sinna, svo ekki fari illa.

Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, hefur haldið því fram að það sé „til lítils að beina spurningum til Ríkisútvarpsins”:

„Stjórnendur þar telja óþarft að svara slíku. Stofnunin skuldi almenningi ekki neinar skýringar í sambandi við framkvæmd dagskrár í útvarpi og sjónvarpi. Okkur kemur það ekki við.“

Það er í takt við annað hjá yfirstjórn Ríkisútvarpsins að brjóta gerðan þjónustusamning og efna ekki til opins útvarpsþings þar sem almenningi gefst tækifæri til að koma á framfæri gagnrýni, athugasemdum og hugmyndum um dagskrá, fréttaflutning og annað í starfsemi ríkismiðilsins. Þess í stað er gagnrýnin hundsuð eða svarað með skætingi og persónulegum árásum (og auðvitað þegir fréttastofa Ríkisútvarpsins um samningsbrotið).

En stjórnendur í Efstaleiti halda „áfram að skrapa botn ruslakistunnar og sýna okkur ruslið sem þeir finna þar,“ skrifar Eiður Guðnason á heimasíðu sína. Eiður heldur því einnig fram að innlend dagskrárgerð Ríkisútvarpsins sé „í molum undir núverandi stjórn þar á bæ“.

Samkvæmt þjónustusamningnum skal Ríkisútvarpið leggja áherslu „á íslenskt efni og að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð”. Dómur Eiðs Guðnasonar er skýr í þessum efnum en benda má á að fátt getur talist til nýsköpunar í dagskrárgerð hjá ríkismiðlunum, annað en að taka upp þætti frá frjálsum miðlum, hvort heldur það eru spuningaþættir, umræðuþættir eða grínþættir. Nýsköpunin hefur með öðrum orðum falist í að láta einkaaðila sinna nýsköpuninni.

Í áðurnefndum þjónustusamningi segir að Ríkisútvarpið skuli „vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varðar og miðla upplýsingum um mikilvæg málefni líðandi stundar og þannig auðvelda fólki að taka virkan þátt í lýðræðislegri umræðu“. Á undanförnum vikum hafa fjölmargir – þingmenn sem aðrir – rætt málefni Ríkisútvarpsins og sumir bent á nauðsyn þess að stokka upp spilin í Efstaleiti. Gjörbreyta þurfi skipulagi stofnunarinnar, jafna samkeppnisstöðu frjálsra fjölmiðla gagnvart ríkismiðlinum, og jafnvel lækka „nauðungargjöldin“ sem renna til Ríkisútvarpsins. Sumir ganga enn lengra og telja nauðsynlegt að leggja ríkismiðilinn niður enda séu engin rök fyrir því að ríkið standi í rekstri fjölmiðlafyrirtækis.

Þrátt fyrir ákvæði í þjónustusamningi og raunar í lögum, hafa forráðmenn Ríkisútvarpsins ekki séð ástæðu til þess að veita þeim, sem vilja breytta stefnu, vettvang á útvarps- og sjónvarpsbylgjum ríkisins. Engu er líkara en að sumar skoðanir séu rétthærri en aðrar og hugmyndir sem eru stjórnendum í Efstaleiti ekki að skapi,  séu bannfærðar.

Forráðamenn Ríkisútvarpsins gerðu margt vitlausara en að leita aðstoðar til kollega sinna hjá breska ríkisútvarpinu – BBC. Þar hafa yfirmenn brugðist við harðri gagnrýni með allt öðrum hætti en Efstaleitismenn hafa gert. En kannski hefur Björn Bjarnason rétt fyrir sér þegar hann heldur því fram í dagbókarfærslu að stjórnendur Ríkisútvarpsins séu „engir menn til að leiða málið friðsamlega til lykta”.