Páll Magnússon útvarpsstjóri fer frjálslega með að túlka skriflegan þjónustusamning sem hann undirritaði fyrir hönd Ríkisútvarpsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið 24. maí 2011. Hann telur sig ekki brjóta ákvæði samningsins um árlega opið útvarpsþing, þar sem engin tímasetning sé í samningnum.

Í samtali við Morgunblaðið síðastliðinn laugardag segir Páll:

„Ef það er ekki áskilnaður um það í samningnum hvenær hlutir eiga að koma til framkvæmda þá gerir maður ráð fyrir því svigrúmið til að hrinda þeim í framkvæmd sé samningstíminn.“

Samkvæmt röksemdum útvarpsstjóra væri það nægjanlegt að halda hið „árlega“ útvarpsþing í lok samningstímans – 31. desember 2015. Í huga útvarpsstjóra væri það ekki brot á gerðum samningi að halda útvarpsþing aðeins einu sinni á samningstímanum, þar sem ekki er sagt hvenær „hlutir eiga að koma til framkvæmda“.

Að þessu sinni skal það látið liggja á milli hluta, að almennt er það svo að sé annað ekki sérstaklega tekið fram í samningi, þá koma ákvæði hans strax til framkvæmda. En rök útvarpsstjóra vekja upp spurningar um hvort yfirmenn Ríkisútvarpsins líti sömu augum á önnur ákvæði þjónustusamningsins, enda ekki sagt til um „hvenær hlutir eiga að koma til framkvæmda“. Þetta á t.d. við um:

  • Ríkisútvarpið leggur áherslu á íslenskt efni og að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð.
  • Ríkisútvarpið skal hafa að leiðarljósi að reka metnaðarfulla útvarpsþjónustu í almannaþágu.
  • Að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varðar og miðla upplýsingum um mikilvæg málefni líðandi stundar og þannig auðvelda fólki að taka virkan þátt í lýðræðislegri umræðu.
  • Að leggja rækt við íslenska tungu.

Ákvæði um árlegt opið útvarpsþing er skýrt í þjónustusamningnum. Með útvarpsþingi á að gefa almenningi kost á því að koma að dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins:

„Dagskrárstefnan er í stöðugri endurskoðun í beiðum hópi, meðal annars með aðkomu dagskrárgerðarfólks og á árlegu opnu útvarpsþingi, þar sem t.d. er rætt um starfsemi Ríkisútvarpsins, hlutverk útvarpsins í almannaþágu og um hugmyndafræði þess. Komi fram tillögur að stefnubreytingu skulu þær ræddar í dagskrárráði útvarps eða sjónvarps eftir því sem við á áður en stefnan er sett.“

Það á að móta og endurskoða stefnu og sýn Ríkisútvarpsins „með þátttöku margra, m.a. á útvarpsþingi, þar sem leitast er við að finna leiðir til að koma til móts við þarfir og væntingar mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa um þjónustu almannaútvarps“.

Í áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið segir Páll að ástæða þess að útvarpsþing hafi ekki verið haldið sé sú að formið á þinginu hafi verið „að bögglast fyrir okkur formið á þinginu“. Það er erfitt að taka þessa skýringu alvarlega. Aðrar og nærtækari skýringar eru á vanefndum Ríkisútvarpsins. Forráðamenn Ríkisútvarpsins vilja takmarka umræðuna eða eins og Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðerra, sendiherra og fréttamaður Ríkisútvarpsins segir á heimasíðu sinni síðastliðinn laugardag:

„Það er til lítils að beina spurningum til Ríkisútvarpsins. Stjórnendur þar telja óþarft að svara slíku. Stofnunin skuldi almenningi ekki neinar skýringar í sambandi við framkvæmd dagskrár í útvarpi og sjónvarpi. Okkur kemur það ekki við.“

En nú lofar Páll Magnússon að halda útvarpsþing á komandi vetri, þó tímasetningin liggi ekki fyrir. Þannig verða nær þrjú ár liðin frá því að samningurinn var undirritaður þegar hið árlega útvarpsþing verður loks boðað:

„Það er ekki búið að tímasetja það alveg, þetta fer eftir því hvenær þeir erlendu gestir sem við hyggjumst bjóða til þingsins gefa kost á sér hvaða tímasetningar endanlega verða ákveðnar en það mun liggja fyrir núna í haust.“

Þannig hefur Páll Magnússon fundið hentuga leið til að koma í veg fyrir eða takmarka umræðu, ábendingar og gagnrýni almennings á útvarpsþingi. Dagskráin verður fyllt upp með erindum erlendra gesta.

Björn Bjarnason segir í dagbókarfærslu að nú hafi „ríkisútvarpið náð tökum á því að halda útvarpsþing – tímasetningin ræðst af komu erlendra gesta!“:

„Hvernig halda menn að fréttastofa ríkisútvarpsins tæki á máli af þessu tagi ef um væri að ræða aðra opinbera stofnun? Stofnun sem kynni ekki að halda ársfund?“