Þegar ráðherra vísar á aðstoðarmann ættu blaða- og fréttamenn að fá örlítið „blóðbragð” í munninn. Ástæða þess að stjórnmálamaður forðast kastljós fjölmiðla ekki alltaf augljós en oftar en ekki tilefni til góðrar fréttar – jafnvel skúbbsins sem allir fjölmiðlungar leita eftir. Þegar ráðherra vísar á aðstoðarmann til að „meta hvort tilefni væri til þess” að ráðherrann veiti viðtal er eitthvað mikið í gangi.

Vinstri grænir samþykktu kröfu Samfylkingarinnar, þegar flokkarnir mynduðu ríkisstjórn, að senda ósk til Brussel um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar með var gengið þvert á stefnu flokksins og kjósendur skildir eftir með sárt ennið. Afleiðingin hefur verið sú að flokkurinn er klofinn, þingmenn hafa sagt skilið við flokkinn og fylgishrun blasir við.

Ein leið Vinstri grænna til að rétta sinn hlut er að tryggja að viðræðum sé hætt eða þeim frestað þannig að ekki verði haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður VG, telur rétt að staldra við og endurmeta stöðuna. Svandís Svavarsdóttir er sama sinnis. Þannig er ljóst að meirihluti þingflokks Vinstri grænna, er á því að ríkisstjórnin sé á rangri braut.

Sá er þetta skrifar hefur haldið því fram að forysta VG sé að undirbúa stjórnarslit og kosningar innan þriggja mánaða. Með því sé Steingrímur J. að þétta raðirnar líkt og „herforingi í afleitri stöðu” og „koma andstæðingum sínum í opna skjöldu – leggja til atlögu þegar andstæðingurinn er ekki undir það búinn”. Aðrir hafa haldið því fram að herforinginn sé að einangrast innan flokksins sem hann stofnaði.

Frétta- og blaðamenn eiga að komast að hinu rétta og eftirfarandi frásögn í fréttaskýringu Morgunblaðsins ætti að herða þá í viðleitni sinni:

„Spurður út í ummæli Svandísar og Katrínar vísaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á aðstoðarmenn sína. Þeirra væri að meta hvort tilefni væri til þess að formaðurinn gæfi kost á viðtali í fríi sínu. Leitað var til aðstoðarmanns sem kom erindinu áleiðis en lengra náði málið ekki.”

Sem sagt: Ráðherrann og leiðtoginn Steingrímur J. Sigfússon er farinn að benda á aðstoðarmenn sína til að taka ákvörðun um hvort ástæða sé til þess að hann veiti fjölmiðlum viðtöl. Þetta er ekki sá Steingrímur sem almenningur hefur kynnst síðustu tæpa þrjá áratugi. Enginn veltir því fyrir sér af hverju hinn harði stjórnmálaforingi sem alltaf hefur verið reiðubúinn með yfirlýsingar hefur ákveðið að fela sig á bak við aðstoðarmenn.

Í hádeginu greindi fréttastofa ríkisins svo frá því að „Steingrímur J Sigfússon hefur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ekki viljað veita fréttastofu viðtal vegna málsins en hann er í fríi í Frakklandi”.

Forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig fjölmiðlar munu standa að verki á komandi dögum. Reynslan gefur ekki tilefni til bjartsýni.