Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, á tvo kosti. Hann getur annars vegar haldið áfram samstarfinu við Samfylkinguna út kjörtímabilið eða hins vegar slitið samstarfinu skömmu eftir að þing kemur saman í september. Velji Steingrímur fyrri kostinn tryggir hann sér og ríkisstjórninni neðanmálsgrein í sögubækurnar þar sem þess verður getið að í fyrsta skipti hafi vinstri stjórn setið í heilt kjörtímabil. Um leið er ljóst að hann tekur áhættu á að einangrast enn frekar innan eigin flokks og flokksmenn munu ganga sundraðir til kosninga. Að óbreyttu mun flokkurinn bíða afhroð í kosningunum. Síðari kosturinn er í mörgu miklu vænlegri jafnt fyrir Steingrím og Vinstri græna.

Samstarfið við Samfylkinguna hefur verið kostnaðarsamt fyrir Vinstri græna. Glæsilegur kosningasigur vorið 2009 þegar flokkurinn fékk 21,7% hefur þurrkast út og gott betur. Samkvæmt nýjasta þjóðarpúsli Capacent-Gallup ætla aðeins rúm 12% kjósenda að styðja VG. Flokkurinn næði ekki einu sinni sama árangri og 2007 þegar 14,3% kjósenda greiddu honum atkvæði. Að óbreyttu stefnir því í að árangur af pólitískur starfi og uppbyggingu síðasta áratugar verði þurrkaður út.

Steingrímur J. Sigfússon er eldri en tvævetra í pólitík og gerir sér fyllilega grein fyrir stöðunni. Líkt og herforingi í afleitri stöðu mun hann því leita leiða til þess að þjappa liði sínu saman en um leið koma andstæðingum sínum í opna skjöldu – leggja til atlögu þegar andstæðingurinn er ekki undir það búinn. Þess vegna munu Steingrímur og aðrir forystumenn VG hugleiða vandlega að slíta stjórnarsamstarfinu í haust og tryggja að kosningar fari fram í október/nóvember.

Sjá má merki þess að VG hefur hafið undirbúning að stjórnarslitum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því í gær (laugardag 11. ágúst) að
mjög „aukinn stuðningur er innan þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við að endurmeta aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu”. Í fréttinni var því haldið fram að forsendur hafi breyst og vilji sé fyrir því að taka málið upp á Alþingi á ný. Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, sagði í samtali við RÚV:

„Það er líka ljóst að forsendur í Evrópu hafa breyst, efnahagslegar og pólitískar líka. Það er mikil óvissa hvert Evrópusambandið stefnir. Það er ljóst að þessi óvissa þar hefur talsverð áhrif á þetta ferli hér á landi.”

Svandís Svararsdóttir umhverfisráðherra talar á svipuðum nótum og telur það einboðið að endurmeta þurfi stöðuna:

„Þannig að Vinstri hreyfinging grænt framboð hlýtur sem flokkur að þurfa að ræða það innan sinna raða hvaða nálgun er best í slíkri endurskoðun og það er rakið að gera það á flokksráðsfundinum nú í lok mánaðarins. Og í framhaldinu tel ég rétt að fara ítarlega yfir málið í samstarfsflokknum í ljósi þessara breyttu forsendna frá árinu 2009.“

Ekki þarf mikinn sérfræðing í stjórnmálum til að átta sig á því að forystumenn VG er farnir að leita sér að útgönguleið úr ríkisstjórninni. Þeir vita að Samfylkingin mun aldrei og getur aldrei samþykkt að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka eða setja hana á ís. Slík ákvörðun gæti sprengt flokkinn í sundur. Enginn stjórnmálaflokkur, sem leggur áherslu á eitt mál sem allt á að leysa, getur leyft sér að henda því fyrir róða.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið í skjóli þingflokks Vinstri grænna, hafa reynst flokknum dýrkeyptar og sundrað flokksmönnum og gert kjósendur fráhverfa flokknum. Með því að láta Evrópumálin verða eina helstu ástæðu stjórnarslita, verða raðir VG þéttari og eflaust munu margir kjósendur snúa sér aftur að flokknum. Deilan um Grímsstaði á Fjöllum og Nubo, ristir einnig djúpt meðal kjósenda VG og margir, þar á meðal Jón Bjarnason, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, hafa krafist þess að Steingríms J. Sigfússonar geri hreint fyrir sínum dyrum í þeim efnum. Rammaáætlun um nýtingu jarðvarma og vatnsafls, getur einnig gefið VG ágætt tilefni til þess að slíta samstarfi við Samfylkinguna enda flokkarnir ekki samstíga í þeim efnum, þó reynt sé að láta svo líta út á yfirborðinu.

Þannig hafa Vinstri grænir a.m.k. þrjú mál sem skipta liðsmenn flokksins og kjósendur miklu; Evrópusambandið, sala og/eða leiga á stóru landsvæði til erlends auðmanns með tengsl við ríkisstjórn stórveldis og nýting náttútuauðlinda.

Vinstri grænir vita einnig að flokkar stjórnarandstöðunnar eru ekki búnir að vinna heimavinnuna enda miða þeir allt sitt starf við að ekki verði kosið fyrr en eftir rúma átta mánuði. Kosningar með skömmum fyrirvara munu því, að öðru óbreyttu, veikja mjög stöðu stjórnarandstöðunnar. Skipan á framboðslista er sett í uppnám og fastmótuð stefnuskrá fyrir kosningar verður unninn á hlaupum. Hið sama á við um ný framboð sem ógnað hafa VG og sótt fylgi í raðir flokksins. Færa má rök fyrir því að hagsmunir Samfylkingarinnar séu þeir sömu og Vinstri grænna.

Steingrímur J. Sigfússon og félagar hans í forystu VG geta því gert sér vonir um að ná miklu betri árangri í kosningum sem verða í október/nóvember en kosningum næsta vor. Möguleikar flokksins að tryggja sér setu í ríkisstjórn aukast að sama skapi. Á nokkrum vikum er hægt að mynda nýja þriggja flokka ríkisstjórn með þátttöku Framsóknarflokksins. Með því hafa Vinstri grænir og Samfylkingar fengið fjögur dýrmæt ár í viðbót og ekki skemmir að Sjálfstæðisflokknum verður haldið utan ríkisstjórnar. Framsóknarflokkurinn undir nýrri forystu hefur tryggt sér þátttöku í ríkisstjórn eftir að hafa setið úti í kuldanum frá 2007.

Gangi þessi einfaldi pólitíski kapall upp þurfa sjálfstæðismenn líklega að bíða a.m.k. í fjögur löng ár til viðbótar að geta látið til sín taka við stjórnun landsins.

Spurningin sem sjálfstæðismenn þurfa að svara er þessi: Er flokkurinn tilbúinn í kosningar innan örfárra vikna? Flestir munu svara spurningunni neitandi.