Af gefnu tilefni er vert að vekja athygli á því sem segir í siðferðiskafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis:

„Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri átt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ekki lesið þennan kafla skýrslunnar og hún er einnig búin að gleyma orðum sínum á Alþingi 15. mars 2005. Þá hafði hún framsögu fyrir tillögu til þingsályktunar, sem flutt er af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð. Þá sagði þingmaðurinn Jóhanna meðal annars:

„Ljóst er að æðstu embættismenn framkvæmdarvaldsins fara með vandmeðfarið vald og nauðsynlegt er að samhliða slíku valdi fari rík ábyrgð, enda bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt lögunum og stjórnarskrá. Því er nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð og veita með því ráðherrum nauðsynlegt aðhald …“