Ef staðreyndir falla ekki að fyrirfram ákveðnum skoðunum detta margir í þá gryfju að „búa” til staðreyndir – skálda eitthvað sem þeim finnst að sé eða hjóti að vera. „Skáldaðar staðreyndir” eru síðan notaðar til að rökstyðja ákveðna skoðun. Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingur og stjórnarmaður í Samstöðu (flokki Lilju Mósesdóttur) trúir því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu flokkar leyndarhyggju. Til að renna stoðum undir þessa skoðun sína og réttlæta samsæriskenningu, tekur Kristbjörg sér skáldaleyfi – setur fram staðlausa stafi og bull.

Í pistli á Eyjunni, undir fyrirsögninni, Valdið er fólksins en ábyrgðin líka, skrifar Kristbjörg:

„Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gefa ekki upp eða birta nöfn þeirra sem sitja í miðstjórn/landsstjórnum flokkanna sem fara með valdið á milli flokksþinga/Landsfunda. Þannig er orðið gagnsæi merkingarlaust. Þrátt fyrir að þessir einstaklingar séu lykilaðilar flokkanna og fari með mikið vald. Rökin sem m.a. hafa verið notuð eru sú að margir vilji ekki gefa upp að þeir starfi í flokkum vegna persónulegra hagsmuna t.d. vegna fyrirtækjareksturs. Er það ekki best fyrir þá einstaklinga bara að sleppa því að sitja í miðstjórn þar sem valdið er? Nóg er hægt að starfa í flokkunum undir félagaleynd. Getur verið að einhverjir séu að raða í kringum sig fólki til að tryggja eigin hagsmuni og vilji þess vegna ekki að slikt sé opinberað? Eiga flokksfélagar og kjósendur ekki rétt á því að vita hverjir skipa miðstjórn?”

Allt er þetta meira eða minna rugl og tilbúningur – hreinn skáldskapur. Kristbjörg hefði ekki þurft að leita lengi inn á vef Sjálfstæðisflokksins til að finna lista (með myndum og upplýsingum) yfir frambjóðendur til miðstjórnar á síðasta landsfundi. Hún hefði einnig átt með lítilli fyrirhöfn að finna upplýsingar um alla þá sem sitja í miðstjórn eftir breytingar sem gerðar voru á samþykktum Sjálfstæðisflokksins á flokkráðsfundi fyrir nokkrum mánuðum:

Í kjöri til miðstjórnar

Miðstjórn og flokksráð

Kristbjörg hefði einnig fundið upplýsingar um niðurstöðu miðstjórnarkjörs langt aftur í tímann með því að leita á veraldarvefnum. Hún hefði einnig fundið tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum frá 21. febrúar 2012, þar sem auglýst var eftir frambjóðendum til miðstjórnar. Þannig er nú leyndarhyggjan hjá íhaldinu.

Á vef Framsóknarflokksins kemur fram að 180 mann sitja í miðstjórn. Þá eru einnig upplýsingar um þá sem sitja í landsstjórn flokksins og þar eru meira að segja upplýsingar um tölvupóstfang viðkomandi.

Landsstjórn Framsóknarflokksins

Kristbjörg bendir réttilega á í pistli sínum að traust á Alþingi er í sögulegu lágmarki. Hún segir síðan að mikið hafi verið „ritað og rætt um gagnsæi, lýðræði og önnur góð hugtök:

„Það mun hins vegar ekki skila neinum ávinningi eða bættu ástandi fyrr en þau fallegu orð eru útfærð í aðgerðir sem eru framkvæmdar og vinnubrögðum er breytt í raun og veru. Það breytist heldur ekki neitt á meðan þeir sem vilja ekki breytingar eða ganga fyrst og fremst eftir sérhagsmunum fá umboð fólksins til valda.”

Kristbjörg er einn af forystumönnum í nýjum flokki sem kennir sig við lýðræði og velferð. Þegar þetta er ritað hefur flokkurinn ekki birt siðareglur á vef sínum – þær eru sagðar í vinnslu. Vonandi er að siðareglur taki á því að banna stjórnarmönnum flokksins að fara fram opinberlega með staðlausa stafi – skáldskap til þess að nýta í pólitískri baráttu. Eða verður allt leyft á komandi mánuðum. Verður hin nýja pólitík Samstöðu reist á skáldskap ef það hentar? Ætla Kristbjörg og félagar hennar í Samstöðu að auka traust Alþingis með þeim hætti?