Alistair Darling, sem var fjármálaráðherra Breta haustið 2008, skrifaði bók um hlut Breta í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, Back from the Brink, sem kom út árið 2011. Það segir sitt, að þessi bók var ekki til á Þjóðarbókhlöðunni, áður en ég gerði ráðstafanir til þess, að safnið útvegaði sér eintak af henni. Darling var þó einn helsti gerandinn í íslenska bankahruninu, sem 340 milljónum króna var varið í að rannsaka og 110 milljónum króna að auki í að prenta skýrslu og skrásetja gögn, samtals 450 milljónum króna. Darling nefnir Ísland oft í bók sinni. Hann segir frá uppgangi Landsbankans í Bretlandi og bætir við (bls. 137): „Í tengslum við þetta virtust ýmsir íslenskir ríkisborgarar auðgast mjög. Sumir gátu jafnvel veitt breska Íhaldsflokknum rausnarlega styrki.“ Í Bretlandi eru styrkir til stjórnmálaflokka birtir opinberlega. Ég gat ekki séð neina Íslendinga eða íslensk fyrirtæki á listum yfir styrkveitendur Íhaldsflokksins. Ég spurði Darling því, hvaðan hann hefði þessar upplýsingar. Hann kvaðst hafa lesið um þetta, á meðan hann var að skrifa bók sína.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson