Óli Björn Kárason

Undir lok árs 2009 var tekin ákvörðun um að endurreistur Landsbanki hf. skyldi gefa út skuldabréf til LBI (þrotabús gamla Landsbankans) vegna yfirtöku eigna og skulda hins fallna banka. Samkvæmt ársreikningi Landsbankans stóð skuldabréfið í tæpum 238 þúsund milljónum króna í lok síðasta árs sem er litlu lægri fjárhæð en bókfært eigið fé bankans.

Upphaflega var skuldabréfið tvíþætt; skuldabréf A sem var gefið út 2009 og skilyrt skuldabréf vegna virðisaukningar á hluta á lánasafni Landsbankans miðað við árslok 2012. Endanlegt skuldabréf var gefið út í apríl 2013. Skuldabréfaútgáfur Landsbankans til LBI eru ekki aðeins þungur baggi fyrir bankann heldur þjóðarbúið í heild. Alls fá kröfuhafar bankans greiddar 350 þúsund milljónir króna í erlendum gjaldeyri auk vaxta sem voru fram í október LIBOR-vextir að viðbættu 2,9% álagi en eftir það hækkar álagið. Skuldabréfið er í evrum, dollurum og pundum.

Umrætt skuldabréf er líkt og argandi ljón sem stendur í vegi fyrir afnámi fjármagnshafta og er um leið alvarleg ógn við fjármálalegan stöðugleika. Áður en hægt verður að stíga stór skref við afnám hafta verður að endursemja um skuldabréfið – lengja lánið og breyta skilmálum. Að öðrum kosti mun almenningur jafnt og fyrirtæki greiða hátt verð.

Þokukenndar upplýsingar

Upplýsingar um hvernig staðið var að ákvörðun um útgáfu skuldabréfsins eru í besta falli þokukenndar. Haldbær rök fyrir því að gefa skuldabréfið út í annarri mynt en íslenskri krónu hafa ekki komið fram. Landsbankabréfið virðist vera heitur kolamoli í íslenska stjórnkerfinu en útgáfa þess er samkvæmt samkomulagi fjármálaráðuneytisins, Landsbankans hf. og LBI hf. sem gert var í desember 2009.

Erfitt er að verjast þeirri hugsun að ákvörðun um skuldabréfaútgáfuna í erlendri mynt hafi tengst beint eða óbeint Icesave-deilunni. Um svipað leyti og gengið var frá skuldabréfinu var tekist hart á um svokallaða Icesave-samninga á Alþingi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tókst að fá þá samþykkta með 33 atkvæðum gegn 30. Síðar voru samningarnir felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu með 98% atkvæða.

Ógn við stöðugleika

Í skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika (2014/2) kemur fram að samningsbundnar afborganir af gjaldeyrislánum, sem eru óháðar fjármagnshöftum, séu þungar á næstu árum, ekki síst vegna afborgunarbyrði af gjaldeyrisskuld Landsbankans. Fram kemur að ef ekki verði af lengingu á skuldabréfi Landsbankans kunni gengi íslensku krónunnar að lækka um 8%, einkaneysla dragast saman, verðbólga aukast og vextir hækka.

„Til að koma í veg fyrir þessi áhrif yrði ríki og Seðlabankinn að veita Landsbankanum langtímafjármögnun í erlendum gjaldmiðlum með tilheyrandi áhrifum á skuldastöðu ríkissjóðs og gjaldeyrisforða,“ segir í skýrslu Seðlabankans.

Aðstæður til að afnema höftin í nokkrum áföngum eru á margan háttar hagstæðar. Gríðarlegum hallarekstri ríkissjóðs hefur verið snúið við, vextir á alþjóðlegum mörkuðum eru í lágmarki, skammtímakrónueignir hafa lækkað og munur á opinberu skráðu gengi krónunnar og aflandsgengi hefur minnkað. Jákvæður viðskiptajöfnuður undirstrikar möguleikana, þótt þar geti brugðið til beggja vona vegna þróunar efnahagsmála, ekki síst í Evrópu. Undan öllu þessu grefur Landsbankabréfið sem alvarleg ógn við fjármálastöðugleikann. (Í maí síðastliðnum gengu Landsbankinn og LBI frá samkomulagi um lengingu á skuldabréfinu með fyrirvara um undanþágur frá fjármagnshöftum, sem í raun er ekki hægt að fallast á enda væri aðeins farið úr öskunni í eldinn.)

Helmingur tekna ríkissjóðs

Um síðustu áramót stóð umrætt skuldabréf í 238 þúsund milljónum króna, eins og áður segir. Nær 45% af útlánum og kröfum til viðskiptavina Landsbankans eru veðsett til tryggingar en alls hefur bankinn veðsett eignir fyrir um 314 þúsund milljónir til LBI. Um 26% af eignum Landsbankans eru veðsett LBI með beinum skilyrtum hætti.

Veðsetningin jafngildir um 16% af áætlaðri landsframleiðslu á liðnu ári og nær 52% af heildartekjum ríkissjóðs. Dregið skal í efa að nokkru sinni hafi einn aðili átt stærra veð á Íslandi og líklega hvergi í hinum vestræna heimi hvort heldur er litið til landsframleiðslu eða tekna ríkisins.

Ljóst er að skilmálar skuldabréfsins eru mjög íþyngjandi fyrir Landsbankann en einnig fyrir aðaleiganda hans – ríkissjóð. Þannig verður bankinn að viðhalda 120-125% veðhlutfalli og takmörk eru sett á arðgreiðslur til eiganda (ríkissjóðs) án þess að bankinn greiði sömu fjárhæð inn á skuldina við LBI.

Veðsetningin þýðir að kröfur þrotabúsins LBI standa framar en innlán í bankanum, sem aftur eru með ríkisábyrgð samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda.

Almenningur og fyrirtæki borga

Ríkisstjórnin stefnir að því að selja allt að 30% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum á næstu tveimur árum. Andvirðinu á að verja til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem stofnað var til vegna eiginfjárframlaga til fjármálastofnana. Í lok síðasta árs námu skuldir ríkissjóðs vegna þessa um 213 þúsund milljónum króna og þar vegur Landsbankinn þyngst.

Líkur eru hins vegar á því að margrætt skuldabréf hafi áhrif á verðmæti Landsbankans, jafnvel þótt samningar um verulega lengingu takist. Þar skipta óvenju íþyngjandi ákvæði skuldabréfsins miklu.

Með öðrum orðum: Það er veruleg hætta á því að almenningur og fyrirtæki þurfi að bera töluvert þungan bagga vegna skuldabréfsins í formi lægra gengis krónunnar, aukinnar verðbólgu, hærri vaxta og minna verðmætis eignarhluta í ríkisbankanum, – Landsbankanum.

Tilgangslaust að leita svara?

Skýrslur og rannsóknanefndir hafa verið skipaðar af minna tilefni en vegna 238 þúsund milljóna króna skuldar í erlendum gjaldmiðlum með veði í útlánum og kröfum í eigu ríkisbanka. Spurningarnar eru að minnsta kosti margar og þá ekki síst þessar:

1. Hvernig var staðið að ákvörðun á útgáfu sérstaks skuldabréfs Landsbanka til LBI hf. árið 2009? Hverjir komu að þeirri ákvörðun fyrir hönd bankans og eiganda hans?

2. Hvaða rök stóðu að baki því að skuldabréfið var gefið út í þremur erlendum myntum en ekki íslenskri krónu?

3. Hafði Icesave-deilan áhrif á ákvarðanir um útgáfu og skilmála skuldabréfsins?

4. Var haft samráð við Seðlabanka Íslands um útgáfu skuldabréfsins? Fór fram greining á áhrifum skuldabréfsins á fjármálastöðugleika Íslands og möguleika á að aflétta höftum á næstu árum? Gerði Seðlabankinn ekki athugasemdir við útgáfu skuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum?

5. Hverjir voru og eru skilmálar skuldabréfs Landsbankans (aðrir en þeir sem hér hafa verið nefndir)? Eru þeir í samræmi við skilmála sem almennt gilda við útgáfu skuldabréfa viðskiptabanka? Hvaða skilmálar eru sértækir og í hverju eru þeir fólgnir?

Kannski ber enginn ábyrgð á útgáfu skuldabréfsins. Þá er tilgangslítið að leita svara við ofangreindum spurningum og mörgum öðrum.

En ljónið stendur enn öskrandi á miðjum veginum.