Aðeins einn þingmaður Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn því að íslensk stjórnvöld tækju við aðlögunarstyrkjum – svokölluðum IPA-styrkjum frá Evrópusambandinu. Sá þingmaður heitir Jón Bjarnason. Hann hefur haldið því fram að um sé að ræða „mútufé“.

Á Vinstrivaktinni gegn ESB, sem haldið er úti af VG-félögum, er því haldið fram að íslenskt stjórnvöld hafi „tungur tvær og tala sitt með hvorri“. Í pistli 21. júní er þessi fullyrðing rökstudd:

„Annars vegar er utanríkisráðherra í einhvers konar skjallbandalagi með ESB, þar sem menn hrósa hverjir öðrum kurteislega fyrir aðildarviðræður Íslands, eins og allt sé í himnalagi í þeim, einstaka ávítandi orð koma frá stjórnmálamönnum ef keyrir um þverbak í samskiptum Íslands og ESB, „uss, uss, ekki vera að segja þetta út af makríldeilunni/Icesave … ” segja íslenskir ráðamenn fyrir siðasakir „uss, uss, ekki vera að gera þetta í makríldeilunni/Icesave” segja embættismenn ESB og meina það. En embættismönnum er gert að halda áfram að halda andliti vegna aðildarviðræðnanna og IPA-styrkir eru samþykktir af öllum sem ráða, þótt ESB sé fullljóst að ekki er vilji fyrir aðild meðal almennings á Íslandi, samt á að bera fé á okkur til öryggis, ef ske kynni! Sumir íslensku ráðamannanna eru nógu óforskammaðir að láta sem það sé sómi af því að þiggja þessa aðlögunarstyrki af því þeir eiga að vera óafturkræfir.

Í hinu orðinu stöndum við í raunverulegum, áþreifanlegum og alvarlegum deilum við ESB og mótmælum formlega (loksins) íhlutun þeirra og óbilgirni.“

Í þingræðu minnti Jón Bjarnason á að flokksráðsfundur VG hafi hafnað því að taka við aðlögunarstyrkjunum.  Þannig sagði meðal annars á samþykkt flokksráðsfundar í nóvember 2010:

„Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins.“

Í ályktun landsfundar VG í október 2011 sagði einnig:

„Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.“

Það vekur því óneitanlega athygli að meirihluti þingflokks VG skuli hafa samykkt IPA –styrkina. Tveir þingmenn sátu hjá (þar á meðal Ögmundur Jónasson) en Svandís Svavarsdóttir var fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.

Eftirtaldir þingmenn VG samþykktu IPA-styrkina:

 • Auður Lilja Erlingsdóttir, (varamaður Árna Þórs Sigurðssonar)
 • Álfheiður Ingadóttir
 • Björn Valur Gíslason
 • Katrín Jakobsdóttir
 • Ólafur Þór Gunnarsson (varamaður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur)
 • Steingrímur J. Sigfússon
 • Þráinn Bertelsson
 • Þuríður Backman

Nei:

 • Jón Bjarnason

Greiddu ekki atkvæði:

 • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, (varamaður Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur)
 • Ögmundur Jónasson

Fjarverandi:

 • Svandís Svavarsdóttir