Óli Björn Kárason

Hugmyndir íslenskra vinstri manna um velferð byggjast á þeirri bjargföstu trú að ríkið sé upphaf og endir lífsgæða. Aukin umsvif ríkisins og annarra opinbera aðila eru ekki aðeins æskileg heldur markmið í sjálfu sér.

Mælikvarði velferðar er einfaldur hjá vinstri mönnum:

Því meiri samneysla (útgjöld ríkis og sveitarfélaga) sem hlutfall af landsframleiðslunni (þjóðarkökunni) því meiri velferð. Í velferðarríki vinstri manna skiptir stærð þjóðarkökunnar ekki mestu heldur hversu stóran hlut hið opinbera tekur af henni. Þannig er velferðin meiri þegar samneyslan er 50% af 1.500 milljarða þjóðarframleiðslu en ef ríki og sveitarfélög taka „aðeins“ til sín 40% af 2.000 milljörðum. Engu skiptir þótt útgjöld hins opinbera séu 50 milljörðum meiri (800 í stað 750) þegar kakan er stærri.

Það var með þennan mælikvarða að vopni sem formaður Vinstri grænna taldi rétt að gagnrýna ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Í langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar er gengið út frá því að aukinn hluti hagvaxtar verði eftir í vösum einstaklinganna. Með öðrum orðum: Að hlutfallsleg stærð ríkissamneyslunnar af þjóðarkökunni verði minni þótt kökusneiðin sé stærri.

Í huga formanns Vinstri grænna er velferðarsamfélaginu ógnað nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga.

Forgangsröðun verður aukaatriði

Brenglaður mælikvarði villir vinstri mönnum sýn og forgangsröðun útgjalda verður aukaatriði. Jafnvel þótt 50 milljörðum af stærri köku sé varið í öflugri heilbrigðisþjónustu, almannatryggingar og til annarra velferðarmála, eru vinstri menn sannfærðir um að verið sé að grafa undan velferðarríkinu.

Það er merkilegt að bera saman hvernig sitjandi ríkisstjórn vill forgangsraða ríkisútgjöldum á komandi ári og hvernig ríkisstjórn – sem tók sér það bessaleyfi að kenna sig við norræna velferð – ákvað að verja fjármunum ríkissjóðs.

Samkvæmt ríkisreikningi 2012 (síðasta heila ár vinstri stjórnarinnar) runnu 44,8% útgjalda ríkisins til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála og er þá stuðst við alþjóðlegan staðal Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fyrir 2015 mun þetta hlutfall hækka í 46,2%. En þar með er ekki sagan öll sögð:

Gangi forsendur fjárlagafrumvarpsins eftir má ætla að útgjöld til þessara málaflokka verði nær 20 þúsund milljónum króna hærri að raunvirði á komandi ári en á tíma hinnar norrænu velferðarstjórnar. Vinstri menn berja hins vegar höfðinu við steininn því samkvæmt hinum heilaga mælikvarða mun ríkissamneyslan dragast lítillega saman, þrátt fyrir að útgjöldin hækki að raunvirði.

Jöfnuður ekki lífskjör

Vinstri menn eru áhugasamari um að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni en að baka stærri köku. Með sama hætti eru þeir uppteknir af því að auka jöfnuð í þjóðfélaginu en hafa minni áhyggjur af því að bæta almenn lífskjör. Engan skal því undra að samfylkingar og vinstri grænir séu hreyknir af „árangri“ hinnar norrænu velferðarstjórnar sem jók jöfnuðinn, en lífskjör allra versnuðu.

Í fyrirmyndarríki vinstri manna er betra að verkamaðurinn hafi 250 þúsund krónur úr að spila á mánuði og forstjórinn eina milljón, en að sá fyrrnefndi hafi 350 þúsund og sá síðarnefndi 1.750 þúsund. Engu skiptir þótt báðir séu betur settir – lífskjör beggja séu betri. Í fyrirmyndarríkinu er launamunurinn fjórfaldur en ekki fimmfaldur. Jöfnuður niður á við er æskilegri en bætt lífskjör allra.

Minni sneið en þó stærri

Það er hægt að finna að ýmsu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, bæði á tekju- og gjaldahlið. Velferðarkerfi hinna fullfrísku lifir enn sæmilegu lífi á meðan ekki er ráðist í róttæka endurskipulagningu og uppskurð á ríkisrekstrinum. Endurreisn skattkerfisins gengur hægar en vonast var til. Eftir er að lagfæra skemmdarverkin á sæmilega einföldu tekjuskattskerfi og þótt verkið sé hafið er eftir að skera upp margflókið kerfi millifærslu, stighækkandi skatta og lamandi jaðarskatta, sem hefur gengið nærri millistéttinni.

En auðvitað geta vinstri menn ekki tekið undir gagnrýni af þessu tagi. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við minni sneið ríkisins (sem þó er stærri) af stærri þjóðarköku. Að einstaklingar og fyrirtæki fái að halda meiru eftir er gagnrýnt enda í samræmi við þá sannfæringu að aukin samneysla sé æskilegri en hærri ráðstöfunartekjur heimilanna og bætt lífskjör.