Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að fjórir nafngreindir dómarar við Hæstarétt liggi undir grun um að hafa veitt DV upplýsingar um meinta tilraun til að hafa áhrif á dómsniðurstöðu þeirra.

Í pistli Jóns Steinar, sem birtist á Pressunni, segir að DV reyni að vega að sér en blaðið heldur því fram að hann hafi reynt „að hafa áhrif á mat dómara í Hæstarétti Íslands í máli Baldurs Guðlaugssonar eftir að málflutningi lauk í því í byrjun árs 2012″. Á vefútgáfu DV í dag segir:

„Afskiptin munu hafa verið þau að Jón Steinar viðraði sjónarmið sín um málið við dómarana. Slík afskipti eru nokkuð sérstök meðal dómara á Íslandi enda er skýrt kveðið á um sjálfstæði dómara í lögum um dómstóla. Jón Steinar vill ekki tjá sig við DV.

Þeir sem dæmdu í málinu voru þeir Viðar Már Matthíasson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason.”

Jón Steinar segir að fjalli um réttmæti þessara ásakana sé „nauðsynlegt að fá svar blaðsins við einni einfaldri spurningu”:

„Hvaðan koma blaðinu upplýsingar um þetta? Ljóst er að einungis fjórir menn koma til greina sem heimildarmenn þess. Það eru þeir fjórir dómarar Hæstaréttar sem ég er sagður hafa reynt að hafa áhrif á. Blaðið nafngreinir þá en segir ekki hver þeirra eigi að hafa látið blaðinu í té þessi válegu tíðindi. Úr þessu verður blaðið að bæta. Að öðrum kosti liggja allir dómararnir fjórir undir grun um að hafa viljað reyna að koma höggi á mig fyrir milligöngu þessa ómerkilega blaðs. Neiti blaðið sjálft að skýra frá þessu ættu þeir sjálfir hver um sig að upplýsa hvort þeir hafi átt hlut að máli.

Svara við þessu er sjálfsagt að vænta um hæl.”