Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll og ber ábyrgð á öryggi vallarins, heldur því fram að allt sé í fína lagi. Þó komust tveir menn inn í flugvél Icelandair framhjá öllum öryggisvörðum og öryggiskerfi. Ísavia segir að mennirnir hafi verið vel skipulagðir en við skoðun á verklagi öryggisstarfsmanna fyrirtækisins, á þeim tímapunkti er umrætt atvik átti sér stað, hafi ekkert athugavert komið í ljós við störf þeirra. Ómar Ragnarson, fréttamaður og flugmaður til áratuga er ekki hrifinn.

Á bloggsíðu sinni bendir Ómar á einfalda staðreynd:

“Það þýðir einfaldlega að hefðu þeir verið með sjálfsmorðsárás í huga gátu þeir sprengt þotuna í loft upp þegar þeir voru komnir inn í hana og gátu væntanlega líka verið með vopn á sér sem gerði þeim kleift að taka þotuna og farþegana í henni í gíslingu og hugsanlega neytt flugmennina til þess að fara á loft.

En það er gott til þess að vita að ekkert var athugavert né brást við öryggiseftirlitið.

Þetta minnir mig á það þegar fréttamaður Sjónvarpsins saumaði mjög að yfirvarðstjóra lögreglunnar í kjölfar margra mannshvarfa í kringum 1975.

Í lokin brast fréttamanninn þolinmæðina og sagði: “Þú getur ekki sagt að það sé í lagi hjá ykkur að finna engan af hinum horfnu.”

“Þetta er ekki rétt hjá þér”, svaraði yfirvarðstjórinn. “Við höfum víst suma af þessum horfnu mönnum um síðir, – dauða og allt í fína lagi.””