Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðingur og fyrrverandi hæstaréttardómari, sakar umboðsmann Alþingis um að grafa undan eigin embætti með ómálefnalegri þátttöku sinni í tilefnislausri aðför að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Í Morgunblaðsgrein heldur Jón Steinar því fram að umboðsmaður hafi gerst liðsmaður í flokki ófagnaðarmanna og það sé „eins og embættismaðurinn vilji koma höggi á ráðherrann”.

Tilefni skrifa Jóns Steinar er að umboðsmaður Alþingis hefur krafið innanríkisráðherra frekari upplýsinga varðandi samskipti innanríkisráðuneytisins og lögreglustjórans í Reykjavík vegna rannsóknar á lekamálinu, svokallaða. Hanna Birna Kristjánsdóttir svaraði fyrra erindi umboðsmanns tveimur dögum eftir að það barst og lögreglustjórinn í Reykjavík lýsti því opinberlega að hann væri sammála því sem ráðherra svaraði:

„Með framangreindum hætti lá fyrir að ráðherrann hafði veitt fullnægjandi svör við spurningum umboðsmannsins. Sá embættismaður sem í hlut átti og einn gat vitað hafði staðfest réttmæti svaranna. Afskiptum umboðsmannsins hefði því átt að vera lokið. En ekki aldeilis. Nú birtir hann almenningi upplýsingar um nýtt erindi til sama ráðherra. Þar eru bornar fram frekari spurningar sem augljóslega hafa ekki minnstu þýðingu fyrir upphaflegt erindi umboðsmannsins. Meðal þeirra má finna kröfu um að hann fái að vita um „hvaða málefni/viðfangsefni voru til umfjöllunar á þessum fundum“. Einnig vill hann vita hver hafi boðað lögreglustjórann til fundanna, óskar eftir gögnum um þau málefni sem þar hafi verið fjallað um og krefst jafnvel enn frekari upplýsinga sem ekki hafa nokkra þýðingu fyrir það málefni sem á að hafa verið tilefni afskiptanna í upphafi.”

Jón Steinar segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi mátt sæta óhæfilegum árásum vegna þessa máls:

„Hið ofnotaða hugtak einelti kemur þar í hugann og nú af fullu tilefni. Fremstir í flokki hafa farið óvandaðir blaðamenn og pólitískir andstæðingar ráðherrans tónað undir. Umboðsmaður Alþingis hefur með þessu nýjasta útspili sínu gerst liðsmaður í flokki þessara ófagnaðarmanna. Það er eins og embættismaðurinn vilji koma höggi á ráðherrann. Svör og skýringar ráðherrans skipta hann engu máli.”

Þá bendir Jón Steinar á eftirfarandi:

„Menn skulu taka eftir því að umboðsmaðurinn mun búa sér til mál á hendur ráðherranum úr þeim efnivið sem hann þykist hafa. Þetta mun hann gera þó að fyrir liggi upplýsingar um að hann hafi ekki talið nokkra ástæðu til að taka upp „að eigin frumkvæði“ athugun máls vegna afskipta fyrri ráðherra dómsmála af rannsókn sakamála; afskipta sem klárlega samrýmdust ekki lögum.

Með ómálefnalegri þátttöku sinni í tilefnislausri aðför að ráðherranum grefur umboðsmaður Alþingis undan embættinu sem honum hefur verið trúað fyrir. Sá lögfræðingur sem fyrstur gegndi þessu embætti, eftir stofnun þess á árinu 1987, aflaði því almennrar virðingar, enda var þar á ferð einhver vandaðasti og virtasti lögfræðingur þjóðarinnar, Gaukur Jörundsson, sem nú er látinn. Það hefði orðið honum þungbært að sjá hvernig sá sem nú gegnir þessu embætti notar það í pólitískum hráskinnaleik sem hann sjálfur hefur valið að taka þátt í.”