Vefþjóðviljinn bendir á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé eina ríkisstjórn landsins sem hefur sett sérstakar siðareglur fyrir ráðherra. Ekki tryggði það góða stjórnsýslu eða hagsmuni almennings en Vefþjóðviljinn skrifar:

„Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reyndi að troða þremur Icesave-samningum upp á Ísland. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét Ísland sækja um inngöngu í Evrópusambandið þrátt fyrir að vitað væri að meirihluti þingmanna vildi ekki að landið gengi þar inn, og allar kannanir hafi bent til að meirihluti landsmanna vildi það ekki heldur. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stóð fyrir stórfelldri atlögu að stjórnarskrá lýðveldisins, þar sem í raun var ekkert gert með niðurstöðu Hæstaréttar um að dæmalaus kosning til „stjórnlagaráðs væri ógild“. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var stýrt af heift og ofstæki, þvert á móti því sem ástæða hefði verið til eftir bankahrunið 2008.”

Vefþjóðviljinn heldur því fram að siðareglur ríkisstjóra séu “algjörlega óþarfur pappír” en þess má geta að umboðsmaður Alþingis hefur sent forsætisráðherra bréf þar sem hann spyr hvort ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins hafi sett sér siðareglur:

„Annað hvort eru ráðherrar sæmilegir og starfa að mestu samkvæmt því, þótt allir geti gert mistök, eða þeir eru það ekki. Kjósendur fylgjast með störfum stjórnmálamanna og kveða svo upp sinn dóm, hver fyrir sig.

Þar skipta skráðar „siðareglur“ engu máli.

Núverandi ríkisstjórn á að segja skýrt að hún muni ekki taka þátt í loddaraskap síðustu ríkisstjórnar. Hún á ekki að setja sér „siðareglur“, en ráðherrar hennar eiga að starfa eftir bestu samvisku og getu. Eftir tæplega þrjú ár þurfa þeir svo að standa fyrir máli sínu hjá kjósendum.”