Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir að meirihluti borgarstjórnar – Besti flokkurinn og Samfylkingin – hafi aðeins sýnt rökksemi þegar þurfti að koma í veg fyrir að boðskapur um kristin gildi næðu eyrum barna og þegar tryggja þurfti að borgarbúar tylltu tunnum sínum niður ekki fjær en 15 metra frá öskubílnum. En borgin drappist niður:

“Og þegar borgarbúar furða sig á umhirðunni á grænum svæðum firrtist samfylkingarþingmaðurinn Mörður Árnason yfir því og hefur allt á hornum sér. Þingmaðurinn virðist þeirrar skoðunar að borgaryfirvöld láti illgresið, njólann og þistlana vaxa úr sér til að hlúa að fortíðarþrá miðaldra borgarbúa, en ekki vegna aumingjadóms, hirðu- og stjórnleysis.

Á sama tíma og Mörður talar máli njóla, þistla og illgresis birtir DFS, Fréttablað Suðurlands, frásögn með myndum frá Gaddstaðaflötum eftir útihátíð þar. Eru það ókræsilegar myndir og dapurlegur vitnisburður um skammarlega umgengni. Hátíðahöldin þar virðist eiga sitthvað sameiginlegt með meirihluta borgarstjórnar í Reykjavík annað en umgengnina. Samkoman var kölluð “Besta hátíðin” vafalítið af sömu hógværð og “Besti flokkurinn”, flokkur Gnarrs. Augljóst er að yfirvöld á Hellu eiga mikið verk fyrir höndum næstu daga. Þá er ekki gert ráð fyrir því að þau fylgi fordæmi höfuðborgarinnar og láti viðbjóðinn vera, svo sem eins og minnisvarða um æskutíð ársins 2012. En rétt er að benda á að það gæti verið gustuk að gefa Merði Árnasyni, þótt utanhéraðs þingmaður sé, færi á að komast á svæðið áður en óþverrinn eftir “Bestu hátíðina” er fjarlægður, svo þingmaðurinn geti drukkið í sig ilminn frá æskuárunum og þeim unaði sem honum fylgdi stundum en auðvitað aðeins við “bestu” aðstæður.”