Það vekur hins vegar athygli að forseti ASÍ beinir spjótum sínum að SA vegna launaskriðsins og boðar hörku í næstu kjaraviðræðum. Forsetinn mætti þannig til leiks í jakka verkalýðsleiðtogans og köflóttu skyrtunni. Sú hegðan er reyndar þekkt í undanfara kosninga til embættis forseta ASÍ og hefur sýnt sig áður undir svipuðum kringumstæðum. Forsetinn hefði kannski átt að mæta til leiks í SA-jakkanum en félögum hans þar kom launaskrið stjórnenda fyrirtækja sl. ár jafn mikið á óvart og forsetanum sjálfum sem er reyndar sérstakt umhugsunarefni.

Eitt vantar í málflutning forsetans sem mætti til leiks í röngum jakka. Það er sú staðreynd að íslenskir lífeyrissjóðir sem margir hverjir eru ekki ótengdir ASÍ áttu síðast þegar ég vissi samtals um 38% hlut í öllum fyrirtækjum sem eru á markaði á Íslandi. Á þeim lista er m.a. að finna fyrirtæki í verslun og þjónustu eins og N1, Haga, Kaupás og fleiri. Í krafti eignarhalds eiga íslenskir lífeyrissjóðir rétt á stjórnarmanni/stjórnarmönnum sem geta og eiga að hafa áhrif á rekstur fyrirtækjanna, þ.m.t. laun æðstu stjórnenda.

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins í grein sem birtist í Morgunblaðinu 31. júlí 2014