Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hvetur til þess að ríkisstjórnarsamstarfið við Framsóknarflokksins verði endurskoðað. Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins, þar sem Ingvar Smári Birgisson var endurkjörinn formaður, var þessum tilmælum beint til þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar segir að þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins hafi „hvorki í orði né verki sýnt að þeir vilji auka frelsi almennings”. Þá er gagnrýnt harðlega að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt „80 milljarða fjáraustur úr ríkissjóði til að kaupa góðvilja Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfi”:

„Á meðan er samstarfsvilji Framsóknarflokksins ekki meiri en svo að formaður og þingmenn flokksins tala tæpitungulaust gegn frekari skattalækkunum, víðsýni í áfengis- og fíkniefnalöggjöf og ábyrgri stjórn í ríkisfjármálum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að fórna frelsishugsjóninni og sínum helstu baráttumálum fyrir ríkisstjórnarsetu.”

Ályktun aðalfundar Heimdallar í heild:

Eftir það áfall sem flokkurinn beið í sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík er mikilvægt að flokkurinn opni sig fyrir framfarasinnuðum og frjálslyndum gildum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að styðja við ungliðahreyfinguna og vera óhræddur við að tala máli frelsis. Ekki er lengur boðlegt að ungliðahreyfingin ein breiði út grunngildi flokksins á meðan kjörnir fulltrúar hans skýla sér bakvið raunhyggju stjórnmálanna.

Ábyrgð í ríkisfjármálum

Heimdallur harmar að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt og tekið þátt í stærstu ríkisvæðingu einkaskulda í Íslandssögunni. Flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum á ekki að láta 80 milljarða af skattfé ganga hrossakaupum þegar samið er um ríkisstjórnarsamstarf. Slíkum fjármunum ætti að verja í að borga niður skuldir ríkissjóðs og lækka þannig vaxtabyrði ríkisins og auka hagsæld til lengri tíma. Lífskjör hafa verið fölsuð á Íslandi í mörg ár með óábyrgum lánatökum ríkissjóðs og komandi kynslóðir Íslendinga munu þurfa að lifa við verri lífskjör til að geta borgað þúsundir milljarða króna í skatta svo hægt sé greiða niður skuldir ríkissjóðs. Sjálfstæðisflokkurinn á að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum, en ekki velta skuldabyrðinni niður kynslóðastigann.

Því ber þó að fagna að gerð hafi verið áætlun um hallalaus fjárlög. En betur má ef duga skal og hvetur Heimdallur ríkisstjórnina til að gera enn betur þegar kemur að næstu fjárlögum. Draga þarf úr umsvifum ríkisins og ríkissjóður þarf að skila hagnaði, svo lækka megi skatta og álögur enn frekar.

Frjálslyndi gagnvart vímuefnum

Heimdallur fagnar þeim áformum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að sala á áfengi verði gefin frjáls. Er þetta framfaraskref sem Heimdallur hefur lengi talað fyrir og telur að verði til heilla fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Þá vonar félagið að forysta flokksins sýni frumvarpinu stuðning í orði og verki.

Það ber að árétta að afglæpavæðing fíkniefna á að vera forgangsatriði hjá ríkisstjórninni, enda hefur röng og skaðleg stefna í fíkniefnamálum valdið ómældum
skaða sem ekki verður tekinn aftur. Heimdallur fagnar því að heilbrigðisráðherra sé opinn fyrir frjálslyndum og víðsýnum nálgunum í þessum málaflokki. Þá telur félagið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eigi að horfa til þingflokks Pírata þegar kemur að stefnumótun í fíkniefnalöggjöf og vinna í átt auknu frjálsræði í þessum málaflokki.

Sligandi landbúnaðarkerfi

Þá hvetur félagið ríkisstjórnina til að ráðast í breytingar á landbúnaðarkerfinu, sem er dragbítur á íslensku efnahagslífi. Ríkið á ekki að styrkja óhagkvæman atvinnurekstur með skattpeningum. Þá þarf að afnema tolla og vörugjöld á innfluttum vörum neytendum til mikilla hagsbóta. Um er að ræða stórt hagsmunamál fyrir almenning í landinu, enda eru matarinnkaup einn af stærstu útgjaldaliðum hvers heimilis. Ekki er boðlegt að sérhagsmunir einnar atvinnustéttar séu settir framar hagsmunum allrar þjóðarinnar.

Jafnrétti og trúfrelsi

Heimdallur lýsir yfir stuðningi við að Félag múslima á Íslandi fái að reisa sér bænahús í Reykjavík. Heimdallur telur hins vegar að afnema eigi ákvæði í lögum um Kristnisjóð þar sem mælt er fyrir um að sveitarfélögum sé skylt að leggja trúfélögum til ókeypis lóðir. Eðlilegt er að trúfélög greiði markaðsverð fyrir lóðir, eins og önnur félagasamtök. Heimdallur gagnrýnir einnig málflutning Framsóknarflokksins í nýliðnum borgarstjórnarkosningum og telur að tryggja verði að frelsi til trúariðkunar verði ekki  skert í nafni fordóma, fáfræði eða hræðsluáróðurs.

Stjórnarsamstarfið

Heimdallur hvetur þingflokk Sjálfstæðisflokksins til þess að endurskoða ríkisstjórnarsamstarfið við Framsóknarflokkinn. Þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins hafa hvorki í orði né verki sýnt að þeir vilji auka frelsi almennings.

Mikið er að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykkja 80 milljarða fjáraustur úr ríkissjóði til að kaupa góðvilja Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfi. Á meðan er samstarfsvilji Framsóknarflokksins ekki meiri en svo að formaður og þingmenn flokksins tala tæpitungulaust gegn frekari skattalækkunum, víðsýni í áfengis- og fíkniefnalöggjöf og ábyrgri stjórn í ríkisfjármálum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að fórna frelsishugsjóninni og sínum helstu baráttumálum fyrir ríkisstjórnarsetu.