Óli Björn Kárason

Skipunartími sitjandi seðlabankastjóra rennur út 20. ágúst næstkomandi og fyrir þann dag þarf fjármálaráðherra að taka ákvörðun um hver skuli gegna þessu mikilvæga embætti næstu fimm árin hið minnsta.

Ákvörðun um skipan seðlabankastjóra er ekki léttvæg. Þvert á móti. Með skipan seðlabankastjóra er mörkuð stefna til framtíðar, ekki aðeins í peningamálum (og þar með efnahagsmálum almennt), heldur einnig er varðar afnám gjaldeyrishafta. Um leið er sleginn tónn um hvers konar stjórnsýsla verður rekin á komandi árum; hvort embættismönnum sé ætlað að gæta hófsemdar, meðalhófs og sanngirni í störfum sínum eða hvort þeir geti farið sínu fram í krafti leyndarhyggju og hafta.

Varla verður um það deilt að stærsta verkefni nýs seðlabankastjóra er að vinna að afnámi gjaldeyrishafta um leið og mörkuð er trúverðug stefna í peningamálum. Í upphafi var því lofað að höftin væru aðeins tímabundin neyðarráðstöfun. En svo tók norræna velferðarstjórnin við og lögum um Seðlabankann var kollvarpað. Eftir það unnu ríkisstjórn og Seðlabankinn samhent að því að herða höftin og festa þau í sessi með ómældum kostnaði fyrir íslenskt efnahagslíf.

Hlekkir þjóðfélags

Í skjóli hafta hefur grafið um sig stjórnsýsla sem er ekki til eftirbreytni enda fylgifiskur haftaþjóðafélags. Og í krafti gjaldeyrishafta var innleitt óréttlæti þar sem einstaklingum og fyrirtækjum er mismunað með ógeðfelldum hætti.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur komið hreint fram og talað skýrt um mikilvægi þess að brjótast út úr höftum. Ekki síst þess vegna skiptir viðhorf nýs seðlabankastjóra til haftabúskapar miklu.

Nýr seðlabankastjóri getur ekki litið á gjaldeyrishöft sem tækifæri til að sýna vald sitt eða sem tækilega nauðsyn á komandi árum við stjórn peningamála. Gera verður þá kröfu til nýs seðlabankastjóra að hann sé samstíga fjármálaráðherra í eindregnum ásetningi við að afnema höftin og sé sannfærður um að þau séu hlekkir þjóðfélags sem verði að brjóta.

Traust á störf og stefnu Seðlabankans er ein meginforsenda þess að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Þar hefur pottur verið brotinn líkt og ég hef haldið fram opinberlega. Ráð snjallra erlendra og innlendra ráðgjafa mega sín lítils ef trúverðugleiki peningastefnunnar er dreginn í efa eða alvarlegar efasemdir og gagnrýni á stjórnsýslu Seðlabankans eiga við rök að styðjast.

Nýr seðlabankastjóri verður að endurvinna traust sem nauðsynlegt er að innlendir og erlendir aðilar beri til hans. Trúverðugleiki peningastefnunnar verður aldrei meiri en það traust sem borið er til seðlabankastjóra og helstu starfsmanna bankans.

Taki alltaf málstað Íslands

Á komandi misserum og árum skiptir miklu fyrir Íslendinga að seðlabankastjóri taki alltaf málstað Íslands. Hann hafi burði til þess að standa óhræddur á alþjóðavettvangi og verja hagsmuni lítillar þjóðar. Hafi dug til þess að leiða íslensk stjórnvöld af villigötum þegar þau vilja samþykkja ósanngjarnar og ólögvarðar kröfur erlendra aðila – fyrirtækja, banka eða ríkja. (Sjálfstæði Seðlabankans á hverjum tíma er samþætt atgervi og hæfni sitjandi bankastjóra.)

Þess vegna má Icesave-þáttur Seðlabankans ekki verða endurtekinn. Í nær fjögur ár hélt bankinn því fram að fjármálastöðugleika Íslands yrði í engu ógnað þótt fallist yrði á hundruð milljarða kröfur Breta og Hollendinga – ríkissjóður (skattgreiðendur) ráði við byrðarnar. Þar gekk bankinn, ásamt mörgum fræðimönnum, með skammarlegum hætti erinda ríkisstjórnar sem virtist bera hagmuni erlendra aðila fremur fyrir brjósti en hag almennings á Íslandi. Kjósendur komu í veg fyrir samþykkt Icesave-samninga og í janúar á liðnu ári hafnaði EFTA-dómstóllinn öllum kröfum í Icesave-málinu.

Nokkrum mánuðum síðar gaf seðlabankastjóri út yfirlýsingu um að miðað við óbreytt gengi nægi „fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána“.

Það hefur aldrei aukið trúverðugleika að segja eitt í dag og annað á morgun.

Tvöföld spennitreyja

Nýr seðlabankastjóri verður í störfum sínum að sýna að hann skilji samhengið á milli vaxtastefnu bankans annars vegar og almennra lífskjara og afkomu fyrirtækja hins vegar. Að hávaxtastefna undir formerkjum hafta sé í raun ekki annað en dulin skattheimta á fyrirtæki og heimili sem berjast í bökkum. Hvert prósentustig í nafnvöxtum kostar nær 50 þúsund milljónir króna en erlendir kröfuhafar og krónueigendur hagnast. Þannig vinnur hávaxtastefna bankans gegn því að hægt verði að tryggja frjálsa fjármagnsflutninga.

Í sameiningu verða fjármálaráðherra og seðlabankastjóri að losa íslensk fyrirtæki úr þeirri tvöföldu spennitreyju sem þau hafa verið hneppt í; annars vegar í höft og hins vegar í hávaxtastefnu Seðlabankans.

Með skynsamri aðhaldsstefnu í peningamálum og hófsemd í stjórnsýslu verður hægt að byggja upp trúverðugleika og traust á Seðlabankanum og peningastefnunni. Að öðrum kosti verðum við dæmd til að búa við höft um ókomin ár.

Grunnur að aukinni hagsæld

Ég trúi því og treysti að sá einstaklingur sem valinn verður til að stýra Seðlabankanum búi ekki aðeins yfir þekkingu á efnahagsmálum heldur hafi ekki síður skilning á samhengi atvinnulífs til sjávar og sveita, peningastefnu og ríkisfjármála. Seðlabankastjóri sem áttar sig á því að ekki verður hægt að byggja upp lífskjör með höftum og ætla fyrirtækjum og einstaklingum að standa undir allt að 30 sinnum hærri nafnvöxtum en í helstu samkeppnislöndum, leggur góðan grunn til aukinnar hagsældar.

Ekki væri það verra að nýr seðlabankastjóri hafi tekið þátt í atvinnulífinu, stofnað og lagt grunn að fyrirtæki í samvinnu við aðra. Fátt eykur skilning á atvinnulífinu meira en að hafa hætt sínum eigin fjármunum og jafnvel rutt brautina á nýjum vettvangi. Slíkan skilning öðlast fáir með því að lifa og hrærast að mestu í vernduðu umhverfi.

Þegar allt þetta er haft í huga getur það varla verið erfitt að skipa nýjan seðlabankastjóra úr hópi þeirra sem sérstök matsnefnd telur hæfasta.