Nýr utanríkisráðherra Breta er talinn efasemdamaður um Evrópusambandið. Ekki er þó líklegt að mannaskipti leiði til breytinga í þeim málaflokki. En í því efni bindur forsætisráðherrann vonir við gluggaskreytinguna. Efans menn um ESB í flokki hans, sem eru nærri því að sveifla atkvæði sínu á Farage, formann flokks sjálfstæðissinna, myndu kannski hika við það eftir mannaskiptin.

Cameron fjölgaði nú konum í ríkisstjórninni og fækkaði körlum. Hann vonar að kjósendur úr röðum kvenna muni fremur kjósa flokkinn hans sjái þær fleiri kvenráðherra en áður. Kannski skiptir slík talning enn meira máli en málefnin sem ríkisstjórn stendur fyrir. Frú Thatcher fækkaði konum í sínum ríkisstjórnum eftir því sem leið á valdatímann. Loks var svo komið að hún sat ein eftir með eintómum körlum. Ekki er líklegt að karlkynskjósendur hægra megin við miðjuna hafi kosið Íhaldsflokkinn þá vegna karlaskarans í ríkisstjórninni. Þeir kusu hann örugglega vegna konunnar sem stjórnaði flokknum og ríkisstjórninni og kom bresku þjóðinni á skrið aftur.

Leiðari Morgunblaðsins 16. júlí 2014