Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, heldur því fram að ESB-umsókn Íslands sé sjálfdauð. Í pistli á Evrópuvaktinni bendir Björn á að Jean-Claude Juncker, nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar ESB, sé búinn að loka á frekari stækkun ESB næstu fimm árin, til 2019. Þá rifjar Björn það upp að Össur Skarphéðinsson hafi afhent aðildarumsókn Íslands árið 2009 og tók Carl Bildt, utanríkisráðherra við henni.

Síðan skrifar Björn:

„Jean-Claude Juncker segir í raun við ríkisstjórn Íslands sem hefur umboð til ársins 2017: Það verður ekkert talað við ykkur!

Brusselmenn segja í raun við Íslendinga: Þið þurfið ekkert að afturkalla umsóknina, hún er sjálfdauð!

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem tók við umsókninni úr hendi Össurar Skarphéðinssonar fyrir fimm árum, tístir á Twitter: Ekki loka á Íslendinga, ef þeir skyldu skipta um skoðun!

Carl Bildt er eini stjórnmálamaðurinn í Evrópu sem blæs í glæður hinar kulnuðu umsóknar Íslands.

ESB-umsókn Íslands hefur orðið sjálfdauð í Brussel – hvað á að afturkalla? Um hvað á að greiða þjóðaratkvæði fyrir þingkosningar á Íslandi árið 2017?”

Björn lýkur skrifunum með góðlátlegri hæðni:

„Er ekki tímabært að snúa sér alfarið að öðrum, meira aðkallandi utanríkismálum Íslands? Til dæmis landgræðslu?”