Á hverjum degi sjá Reykvíkingar og gestir borgarinnar það hirðu- og kæruleysi sem ríkir við stjórn borgarinnar. Borgarlandið er óslegið og í órækt. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins kallar þetta áhugaleysi fyrir að sinna ábyrgðarstörfum. Í leiðara í dag (mánudag) segir meðal annars:

“Dæmi um áhugaleysið er endurtekinn skortur á grasslætti í borgarlandinu frá því að Besti flokkurinn og Samfylkingin settu mark sitt á stjórn borgarinnar. Í fyrra urðu mikil óþægindi vegna magns frjókorna sem rakið var til þess að meirihlutinn í borgarstjórn sinnti ekki þeirri skyldu sinni að halda borginni snyrtilegri með því að slá grasið.”

Þessi skrif leiðarahöfundar Morgunblaðsins hafa komið við auman blett. Stuðningsmenn meirihluta borgarstjórnar hafa mótmælt og gripið til varna.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, ákallar njólann sem hann segir að sé hluti af “heimi æskunnar”. Á bloggsíðu sinni segir þingmaðurinn meðal annars:

“Snöggskornar grasflatir með standardgróðri eru einkenni amerísku bílaborgarinnar sem var gerð að fyrirmynd í Reykjavík kringum 1960, illu heilli. Nú eiga þeir tímar loksins að vera liðnir.”

Hrafn Jökulsson hefur einnig ákveðið að verja Jón Gnarr og Dag B. Eggertsson á bloggsíðu sinni:

“Það vill svo til að ég er farinn að hjóla svolítið um Reykjavíkurborg upp á síðkastið.

Og það skal tekið skýrt fram að það pirrar mig akkúrat ekki neitt þótt ég sjái óslegið gras, enda er ég ekki bóndi.

Og njólar finnst mér ólíkt fallegri en allar þessar andstyggilega ljótu og tilgerðarlegu stjúpur sem hafa af einhverjum ástæðum alltaf verið taldar hámark snyrtimennsku í garðyrkju borgarinnar.”

Óræktin er því Hrafni og Merði mjög að skapi. Og njólinn einnig. Af hverju ætli það sé?