Mér finnst algert ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að þvælast fyrir málinu. Það væri feigðarflan að ætla sé að aðra tafsama samningalotu. Það er margt erfitt og skítt – og það er ekki fyrir fólk sem hræðist óvinsælar ákvarðanir að vinna að því að loka fjárlagahallanum. Það er hins vegar forsenda vaxtalækkunar og ég held að það sé samstaða um að það sé forgangsverkefni. Það er enginn hrifinn af skattahækkunum, frekar en efnhagshruninu sem er ástæða þeirra – eða efnahagsstefnunni sem kom okkur í þessa þröngu stöðu – eða hvað. Frestur á erfiðum ákvörðunum eykur fyrst og fremst vaxtakostnaðinn og mín skoðun er sú að okkar kynslóð verður að hreinsa til – en ekki ýta þessum vanda yfir á börnin okkar. Það er engin tilviljun að allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Margt í endurreisninni hangir á því að þeir takist, svo sem aðgangur að erlendu lánsfé (og þar með framkvæmdir og fjárfesting), skapleg vaxtakjör (og þar með endurfjármögnun allra fyrirtækja) og þannig mætti áfram telja. Það væri að mínu mati feigðarflan að ætla okkur í aðra tafsama samningalotu fyrir óljósan eða engan ávinning. Valkosturinn við fyrirliggjandi samninga er fyrst og fremst ávísun á tafir og þar með aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins í dag og til framtíðar. Í Icesave, einsog í rústum fjármála ríkisins þarf sterk bein til að hreinsa til – en það er ekki annað í boði ef ekki á að ýta þeim vanda sem sem við stöndum frammi fyrir yfir á börnin okkar.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn og þáverandi varaformaður flokksins í pistli á politik.is 18. desember 2009.