Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður bendir á að í apríl síðastliðnum hafi breska ríkisstjórnin látið undan ákalli sérfræðinga og bannað garðeigendum að nota slöngur til að vökva garðana sína. Þetta var gert vegna þess að lítið hafði ringt og grunnvatnsstaðan var talin slæm. Á bloggsíðu sinni skrifar Jón síðan:

“Frá því að ákvörðunin um að banna slöngunoktun var tekin í Bretlandi, hefur ekki verið nokkur þörf á að nota slöngur til að vökva. Æðri máttarvöld hafa heldur betur látið rigna svo um munar á Bretlandi. Flóð og skemmdir á mannvirkjum vegna mikilla rígninga er því viðfangsefnið en ekki þurkur. Í ljósi þessa þykir það kaldhæðni örlaganna að nú skuli tilkynnt að aflétt sé banni við notkun á slöngum við að vökva garða.

Á sama tíma er tjón af völdum flóða vegna mikilla rigninga talið nema um 20 milljörðum króna.

Þessu banni stjórnvalda í Bretlandi við notkun á slöngum við að vökva garða er líkt við hallærislegar stjórnvaldsaðgerðir eins og þegar vandamálafræðingar loftslagsins héldu ráðstefnu í Kaupmannahöfn í desember fyrir nokkrum árum til að sporna við hlýnun jarðar af mannavöldum. Á þeim tíma sem ráðstefnan var haldin var fimbulfrost og erfiðleikar vegna kulda. En íslenski umhverfisráðherrann var hins vegar ánægður með árangurinn í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum vegna þess að hún hafði fengið samþykkta tillögu um að konur kæmust að borðum þessara vandamálafræða í auknum mæli. Þá ætti nú vandamálið að vera leyst ekki satt.”