Vissulega var þessum venjulegu Íslendingum brugðið þegar fréttir bárust af upphlaupi sem varð á Alþingi vegna þess að Vigdís þingmaður Hauksdóttir hafði orð á málþófi stjórnarandstöðunnar. Flestum brá vegna þess að þeir héldu að þingmennirnir væru löngu farnir í sitt langa sumarfrí. Og sumum brá svo enn meir vegna þess að allir sem fylgjast með þingfréttum „RÚV“ vita að orðið málþóf er eingöngu notað þegar andstæðingar vinstristjórnar kveðja sér hljóðs, eins og gerðist stundum á síðasta kjörtímabili, en þó ekki oft…

Ekki verður öðru trúað en stjórnarmeirihlutinn geri nú hlé á fundarstörfum stundarkorn, svo ræða megi af ábyrgð hverju ríkisstjórnin geti slakað út vegna þessa óheppilega upphlaups. Lágmarkskrafa er að stjórnarliðum verði framvegis bannað að nota orðið „málþóf“ enda á það orð ekki við á þessu kjörtímabili. Til frekari sátta mætti svo biðja stjórnarandstöðuna um lista yfir önnur þau orð sem setja ætti í bann og að gera tillögur um nauðsynlega endurskoðun stjórnarsáttmálans.

Leiðari Morgunblaðsins 14. maí 2014