Óli Björn Kárason

Lái mér hver sem vill. Ég á oft erfitt með að skilja gangverk stjórnmálanna og hef þó talist til þeirra innvígðu á síðustu árum. Skilningur minn á fréttamati og framsetningu frétta er einnig á stundum takmarkaður, þrátt fyrir að hafa tilheyrt stétt fjölmiðlunga í nokkuð mörg ár.

Meirihluti borgarstjórnar gerir ekkert með vilja borgarbúa. Samkvæmt könnun MMR nú í apríl vill liðlega 71% Reykvíkinga að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni og 81% landsmanna. Tæplega 70 þúsund manns af öllu landinu tóku þátt í undirritun þar sem skorað er á „Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar“. Allt kemur fyrir ekki. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins (nú Bjartrar framtíðar) vill flugvöllinn í burtu.

Ekki verður þess vart að fjölmiðlar fari hamförum yfir því að borgarstjórn gangi freklega í berhögg við vilja mikils meirihluta borgarbúa og landsmanna allra. En fjölmiðlar fóru hins vegar af límingunum þegar lögð var fram tillaga um að slíta með formlegum hætti aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem þó höfðu verið á ís allt frá árinu 2011. Reglulega voru fluttar ítarlegar fréttir af fjölda þeirra sem skrifuðu undir kröfu um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu og í nokkrar vikur var varla hægt að kveikja á útvarpi eða sjónvarpi öðruvísi en að hamrað væri á því að komandi laugardag yrði útifundur á Austurvelli.

Þetta eru fjölmiðlarnir sem vildu lítið eða ekkert vita um mótmælin þegar þáverandi ríkisstjórn ætlaði að láta landsmenn axla Icesave-einkaskuldir Landsbankans.

Óheilindi og friðhelgi

Þeir stjórnmálamenn sem gengu harðast fram í tilraunum til að þjóðnýta einkaskuldir og virtu þjóðaratkvæðagreiðslur að vettugi, eru óvægnir í gagnrýninni á sitjandi ríkisstjórn fyrir að leggja fram tillöguna um að slíta ESB-viðræðum. Sömu menn og nú krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna komu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2009 um hvort sækja skyldi um aðild að ESB. Samherjar þeirra og sálufélagar í borgarstjórn hundsa síðan meirihluta borgarbúa í flugvallarmálinu, en það er víst í góðu lagi samkvæmt fréttamati ríkisins og fleiri fjölmiðla.

Ásakanir um tvískinnung, hráskinnaleik og óheilindi hafa hljómað af minna tilefni.

Fjölmiðlar lágu ekki á liði sínu þegar forysta Sjálfstæðisflokksins var sökuð um að svíkja kosningaloforð vegna tillögunnar. Engu skipti hvað æðsta valdastofnun flokksins hafði samþykkt. Öll tækifæri til að koma höggi á formann Sjálfstæðisflokksins voru nýtt. Annað gildir um foringja vinstri manna. Engu er líkara en að þeir njóti friðhelgi á helstu fréttastofum landsins. Enginn þekkir það betur en Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna.

Kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 var Steingrímur J. spurður í sjónvarpssal hvort til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild. Svarið var skýrt, stutt og eindregið:

„Nei.“

Steingrímur J. útilokaði að viðræður gætu hafist þá um sumarið og sagði:

„Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði Vinstri grænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“

Í júlí sama ár greiddi Steingrímur J. ásamt meirihluta þingmanna VG atkvæði með því að sækja um aðild. Það þótti ekki taka því á íslenskum fréttastofum að rifja upp orð og loforð sem gefin voru kvöldið fyrir kjördag. Auðvitað kom ekki til greina að gefa í skyn að þáverandi formaður VG væri að ganga á bak orða sinna – svíkja það sem sagt var.

Á kostnað skattgreiðenda

Með athöfnum sínum eða athafnaleysi hafa stjórnmálamenn oft skapað vandamál. Í aðdraganda kosninga hefði mátt ætla að fjölmiðlar reyndu að varpa ljósi á vandann og grafast fyrir um rætur hans.

Eitt vandamálið – afleiðing stefnu hins opinbera – ríkis og borgar – blasir við borgarbúum og þá ekki síst ungu fólki: Íbúðaskortur, hátt leiguverð og hátt fasteignaverð. Fjölmiðlar virðast áhugalitlir um að upplýsa um ástæður erfiðleikanna. Þeir hafa meiri áhuga á að greina skilmerkilega frá því hvernig stjórnmálamenn ætla að nota almannafé til að lagfæra það sem hefur farið úrskeiðis. Þannig ýta fjölmiðlar undir líflegan uppboðsmarkað stjórnmálanna.

Eftir að hafa setið í meirihluta borgarstjórnar og haft fjölmörg tækifæri til að vinna bug á vandanum eða jafnvel koma í veg fyrir hann, hefur oddviti Samfylkingarinnar komið auga á úrræði: Við leysum þetta með skattfé og byggjum opinberar leiguíbúðir, þéttum byggðina, rífum niður bílskúra í Vesturbænum og ryðjum flugvellinum burt úr Vatnsmýrinni. Flestir þegja, einhverjir kinka kolli en fáir og allra síst fjölmiðlamenn spyrja hvort ekki sé hægt að leysa vandann með öðrum hætti en með sameiginlegum fjármunum borgarbúa.

Af hverju tryggir borgin ekki nægjanlegt lóðaframboð, lækkar hlutfall lóðaverðs í byggingarkostnaði og stuðlar þannig að lægra fasteigna- og leiguverði? Af hverju beitir borgarstjórn sér ekki fyrir því að byggingarreglugerðum sé breytt og einkaaðilum þannig gert kleift að byggja litlar og ódýrar íbúðir til sölu eða leigu?

Sem sagt: Ófremdarástand er búið til. Í aðdraganda kosninga bjóðast stjórnmálamenn til þess að greiða úr vandanum með því seilast í vasa borgarbúa. Slíkt þykir ekki lengur fréttnæmt hjá íslenskum fjölmiðlum. Þvert á móti eru stjórnmálamennirnir kallaðir í viðtöl þar sem þeir útskýra í löngu máli hversu góð stefnan er og hversu vel hún leysir klúðrið sem þeir bera sjálfir ábyrgð á að stórum hluta. Og óáreittir fá þeir að virða vilja borgarbúa að vettugi.

Lái mér hver sem vill, þegar ég held því fram að það sé eitthvað öfugsnúið við þetta allt.