Skattar og opinber gjöld ráða miklu í öllum rekstri. Mikil skattlagning kippir stoðum undan flestum rekstri. Á markaði þar sem ríkir samkeppni um vinnuafl, lánsfé og fjárfesta er það grundvallaratriði að fyrirtækjum sé ekki mismunað af hálfu ríkisins með mismunandi skattlagningu. Hærri skattur á eina atvinnugrein setur hana í verri stöðu gagnvart jafnvel alls óskyldum atvinnugreinum. Skattfríðindi hafa sömu áhrif í hina áttina en rugla líka fjárfesta í ríminu. Með því að leggja 7% virðisaukaskatt á hótelgistingu á meðan aðrar greinar ferðaþjónustunnar og aðrar samkeppnisgreinar bera allt að 25,5% skatt er mönnum att út í rekstur og fjárfestingar sem markaðurinn kallar ekki endilega eftir. Offjárfesting er líklegri við þessar aðstæður en þar sem ríkið mismunar ekki atvinnugreinum. Um leið og offjárfest er í einni grein verða menn af tækifærum annars staðar.

Þegar ríkið lækkar skatta á eina atvinnugrein er það að viðurkenna að almenn skilyrði til atvinnurekstrar séu ekki viðunandi. Þá er vonandi augljóst að skattalækkunin ætti að ná til allra greina.

Sigríður Andersen í Morgunblaðinu 27. apríl 2014