Í þessu máli öllu hefur nefnilega kristallast sú andúð á einkaeignaréttinum sem greipt er í bein sumra. Enginn gerir athugasemd við það að hótel rukki fólk fyrir afnot af eignum þeirra, þ.e. hótelherbergjunum, en í hugum sumra eiga aðrar reglur að gilda um land. Það er eitthvað sérstaklega rómantískt, í nítjándu aldar skilningi þess orðs, í þessari afstöðu. Að land sé á einhvern hátt heilagt og að ekki megi menga það með því að blanda peningum í málið.

Náttúrupassinn væntanlegi er ágætis hugmynd, enda gæti hann aukið tekjur þjóðarbúsins af þeim ferðamönnum sem hingað koma, en mun heppilegri lausn er að aðgengi að einstökum svæðum sé stýrt af eigiendum og að þeir fái tekjur af því. Þeir sem telja að hinu opinbera sé betur treystandi fyrir fjármunum fólks en því sjálfu munu væntanlega þó seint samþykkja þetta.

Týr í Viðskiptablaðinu 10. apríl 2014