Heimdallur og Týr, félög ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og Kópavogi, fagna útgáfu sýndargjaldmiðilsins Auroracoin. Í tilkynningu frá félögunum segir að í áratugi hafi Íslendingar mátt búa við gjaldeyrishöft, verðbólgu, gengisfellingar og fjárhagslegan óstöðugleika vegna krónunnar og er því aukin samkeppni í gjaldmiðlamálum kærkomin.

Fullyrt er að Auroracoin veiti „neytendum vörn gagnvart peningaprentun krónunnar, sem er í raun dulin skattlagning á sparnað einstaklinga”:

„Ennfremur hefur Seðlabanki Íslands á síðustu árum njósnað um gjaldeyrisfærslur Íslendinga og með því gengið hættulega langt á friðhelgi einkalífs fólks, en Auroracoin býður upp á leynd gagnvart slíkum njósnum.

Gjaldmiðill er vara sem er almennt samþykkt sem greiðsla. Að sjálfsögðu á einstaklingum að vera í sjálfsvald sett hvaða gjaldmiðil þeir nota. Auroracoin er svar einstaklinga við gjaldeyrishöftum krónunnar. Afnema þarf gjaldeyrishöftin sem fyrst svo hægt sé að hefja uppbyggingu íslensks efnahagslífs af alvöru.”