Björn Bjarnason segir að einkennilegt hafi verið að hlusta á Helga Seljan ræða við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra í Kastljósi um lyktir eða framhald aðildarviðræðna við ESB „eins og ekkert hefði komið fram annað en spurning um þjóðaratkvæðagreiðslu”. Í dagbókarfærslu segir Björn að það hafi verið staðfest í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og „með öðrum opinberum skjölum að ESB stöðvaði aðildarviðræðurnar með því að afhenda ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál”:

„Engu að síður ræðir fréttaþáttarmaður ríkissjónvarpsins við utanríkisráðherra eins og ekkert hafi í skorist. Hvað veldur? Þekkingarleysi eða fréttastefna ESB-RÚV?”

Björn segir að erfitt sé að átta sig á því hvernig mönnum detti í hug að „þöggun dugi til að skjóta sér fram hjá að ræða stóra strandið í ESB-viðræðunum”:

„ Það verður aldrei unnt að þoka viðræðunum áfram nema Íslendingar sætti sig við að missa stjórn fiskveiðilögsögunnar utan 12 sjómílna. Þannig er staðan en á hana var ekki minnst í Kastljósinu, spurningarnar lutu meira að persónu utanríkisráðherrans en efni málsins.”

Í dagbókarfærslunni segir Björn að svipað hafi verið upp á teningnum þegar Helgi Seljan spurði utanríkisráðherra um fer hans til Úkraínu:

„Sjónvarpsmaðurinn  hafði áhyggjur af illmennum í bráðabirgðastjórn Úkraínu. Er þetta aðalatriðið þegar rætt er um það sem er á döfinni í landinu? Eða á að ræða um stórpólitísk áhrif innlimunar Krím í Rússland?

Spurning er hvort þeirri skoðun sé laumað að hlustendum frétta ríkisútvarpsins að ástæðulaust sé að dæma Pútín of hart vegna yfirgangs hans – sýna beri Rússum skilning.”