Afturköllun á ESB-umsókn er nauðsynleg en um leið óþörf til að stöðva viðræður um aðild. Evrópusambandið stöðvaði viðræðurnar árið 2011, þegar fulltrúar þess neituðu að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, í dagbókarfærslu. Hann segir að betri greining á skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ hefði gert „allan ófrið undanfarinna vikna óþarfan.

Björn segir að ótrúlegt sé að lesa frásagnir af útifundi á Austurvelli, „þar sem fluttar eru barátturæður sem reistar eru á þeirri skoðun að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi stöðvað ESB-viðræðurnar”:

„Nú liggur ótvírætt fyrir að ESB stöðvaði viðræðurnar á árinu 2011 þegar fulltrúar þess neituðu að afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál. Því má velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin hafi flýtt sér um of með tillögu sína um afturköllun. Betri greining á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og ályktun dregin af henni hefði gert allan ófrið undanfarinna vikna óþarfan. Afturköllunin er vissulega nauðsynleg til að koma málinu úr farvegi Össurar Skarphéðinssonar en hún er óþörf til að stöðva viðræðurnar, Össur skildi við þær á skeri. ESB hefur engan áhuga á að losa þær þaðan.”