Með hverjum mánuðinum sem líður verður erfiðara að skilja peningastefnu Seðlabankans. Þegar litið er aftur til síðustu ára minnkar skilningurinn enn frekar enda kemur ósamkvæmnin í vaxtastefnunni í ljós. Fyrirtæki og almenningur fá reikninginn sem nemur tugum milljarða króna á ári.

Í sextán mánuði hefur Seðlabankinn haldið stýrivöxtum óbreyttum í 6,0% en um miðjan nóvember 2012 hækkaði bankinn vextina um 25 punkta (úr 5,75%). Þá var verðbólga 4,5% miðað við 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs. Mismunur stýrivaxta og verðbólgu var því 1,5%-stig. Í febrúar síðastliðnum var þessi mismunur 3,9%-stig eða 2,6 sinnum meiri en þegar Seðlabankinn taldi síðast rétt að breyta stýrivöxtum.

Með öðrum orðum: Seðlabankinn hefur hert peningastefnuna – fylgir aðhaldssamari stefnu en áður. Þetta er þeim mun merkilegra í ljósi þess að meiri agi hefur komist á ríkisfjármálin og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði liggja fyrir, þó til skamms tíma sé.stýrivextir

Önnur lögmál gilda

Stýrivextir eru eitt helsta stjórntæki Seðlabankans í viðleitni bankans til að tryggja verð- og gengisstöðugleika. Því hærri sem vextirnir eru því minni verðbólga og hærra gengi krónunnar og öfugt, að öðru óbreyttu. Stýrivextirnir ráða þeim vaxtakjörum sem lánastofnanir geta veitt sínum viðskiptavinum – fyrirtækjum og einstaklingum. Stýrivextir hafa því bein áhrif á afkomu fyrirtækja og heimila og hafa áhrif á eftirspurn þeirra eftir lánsfé. Það er því neikvætt samhengi á milli fjárfestingar og vaxta.

Aðhaldssöm peningastefna væri skiljanleg í umhverfi mikillar þenslu og lausungar í ríkisfjármálum. Þótt vísbendingar séu um bólgu á eignamarkaði (ekki síst vegna gjaldeyrishaftanna) er fjárfesting enn of lítil og áætluð aðeins 10,6% á þessu ári, sem er langt undir því sem nauðsynlegt er og samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður hagvöxtur 2,5% á árinu og 2,6-2,8% árin 2015-2018.

Með krónu í höftum, hógværan hagvöxt og of litla fjárfestingu hefði mátt búast við að Seðlabankinn tæki stór skref í lækkun vaxta. Nei, þvert á móti, hann herðir á peningastefnunni. Þannig virðast gilda önnur lögmál nú en í tíð vinstri ríkisstjórnarinnar þegar stýrivextir voru mánuðum saman langt undir 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs. Stýrivextir voru neikvæðir frá júlí 2011 til maí 2012. Vegna þessa voru lausatök í peningamálum á sama tíma og ríkissjóður var rekinn með 93 og 58 milljarða króna halla.

Vaxtaskattur Seðlabankans

Stefna Seðlabankans ræður miklu um fjárhagslega afkomu allra. Séu vextir of háir eru þeir í raun ekki annað en óbeinn, óeðlilegur og ósanngjarn skattur á fyrirtæki og einstaklinga. Hér er því haldið fram að með stefnu sinni sé Seðlabankinn að leggja á tugmilljarða ósanngjarnan skatt.

Í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika (2013/2) kemur fram að í lok júní síðastliðins hafi skuldir heimilanna numið um 108,3% af landsframleiðslu og skuldir fyrirtækja 154%. Miðað við áætlaða landsframleiðslu á liðnu ári má því gera ráð fyrir að skuldir heimilanna séu fast að 2.000 milljörðum króna og að fyrirtæki skuldi yfir 2.800 milljarða króna.

Hávaxtastefna Seðlabankans er dýrkeypt. Ef bankinn slakaði á klónni og stuðlaði að 1% (100 punkta) lækkun vaxta, sem allar forsendur eru fyrir, hefði það gríðarleg áhrif. Heimilin myndu spara nær 20 þúsund milljónir króna. Fjármagnskostnaður fyrirtækja yrði 28 þúsund milljónum lægri. Í heild yrði fjármagnskostnaðurinn því 48 þúsund milljónum lægri. Halda má því fram að hægt sé að lækka vexti jafnvel enn meira.

Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Þannig má benda á að álagður tekjuskattur allra fyrirtækja á árinu 2012 nam 44 þúsund milljónum. Ríkisstjórnin hefur heitið því að ríkissjóður leggi fram um 20 þúsund milljónir á ári næstu fjögur árin til skuldaleiðréttingar. Um 1% vaxtalækkun skilar heimilunum því sama.

Í þágu kröfuhafa

Hávaxtastefna Seðlabankans – skattlagning á heimili og fyrirtæki – þjónar hagsmunum erlendra kröfuhafa með ágætum. Krónueignir þeirra á Íslandi skila betri ávöxtun en annars og það má draga í efa að þeim bjóðist margir kostir betri í öðrum löndum – þrátt fyrir gjaldeyrishöft.

Með öðrum orðum: Stór hluti þess reiknings sem Seðlabankinn sendir fyrirtækjum og heimilum vegna vaxtaskattsins rennur í vasa erlendra kröfuhafa og krónueigenda.

En skaðinn af peningastefnunni er enn meiri. Vegna of hárra vaxta er fjárfesting minni en ella og þar með eru möguleikar til bættra lífskjara í framtíðinni lakari en ella. Lítil fjárfesting í atvinnulífinu dregur úr möguleikunum til að byggja upp arðbær fyrirtæki og skapa þannig grunn til þess að afnema fjármagnshöftin á komandi misserum.

Sá grunur læðist að huganum að með hávaxtastefnunni sé Seðlabankinn að vinna að öðru markmiði en verðstöðugleika: Að viðhalda höftunum!