Stóru orðin voru ekki spöruð í ræðustól Alþingis á mánudag: „Pólitískir hryggleysingjar“ voru sagðir skipa ríkisstjórnina og spurt hverslags „pólitísk lindýr“ það væru. Tillaga um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka væri „ofbeldi“ og „skandall“. Utanríkisráðherra var sagður hafa „orðið sér til skammar“, slegið met í „ómerkilegheitum“ og að greinargerð væri „hápunktur á lágkúruskap í stjórnartillögu“.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru þannig mikinn í umræðum um fundarstjórn forseta og þingsályktun utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka. Umsókn sem hefur verið í pólitískum ógöngum allt frá fyrstu tíð. Það sem fyrrverandi utanríkisráðherra kallaði hróðugur að væri „diplómatískur sigur fyrir okkur Íslendinga“ í júlí 2009 reyndist ekki annað en pólitískt axarskaft.

Í örvæntingu í aðdraganda kosninga ákvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna um miðjan janúar á síðasta ári að gera hlé á viðræðunum. Viðræðunum hefur aldrei verið haldið áfram – viðræðum sem landsmönnum var talin trú um að tækju aðeins 18 mánuði. Og mikilvægustu hagsmunamál Íslendinga – sjávarútvegur og landbúnaður – voru aldrei rædd við Evrópusambandið.

Pólitísk mistök

Öllum er það ljóst hve mikil mistök það voru af forystumönnum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en formleg umsókn var lögð fram. Umsóknin lenti í ógöngum enda skorti hana allt pólitískt bakland. Þess vegna taldi fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar rétt að draga umsóknina til baka.

Eftirtaldir þingmenn sitja enn á þingi og komu í veg fyrir að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina árið 2009: Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson.

Það er merkilegt að margir þessara þingmanna ganga harðast fram í kröfunni um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli aðildarviðræðum áfram. Þó sagði einn þeirra í atkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina í júlí 2009:

„Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.“

Ósammála félaga sínum?

Þannig talaði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, þegar hann ákvað að samþykkja aðildarumsókn að ESB þvert á yfirlýsta stefnu eigin flokks. Hann áskildi sér rétt til að slíta viðræðunum hvenær sem væri og það án þess að leggja ákvörðunina í dóm þjóðarinnar.

Ögmundur Jónasson segir furðulegt að tillaga um að stöðva viðræðurnar formlega hafi ekki komið fram fyrr. Á heimasíðu sinni skrifar Ögmundur meðal annars:

„Andstæðingar ESB aðildar á þingi greiða varla atkvæði gegn slíkri tillögu.“

Er fyrrverandi formaður Vinstri grænna ósammála félaga sínum?

Sjálfum sér samkvæmur

Bjarni Benediktsson hefur sem formaður Sjálfstæðisflokksins verið samkvæmur sjálfum sér í afstöðunni til Evrópusambandsins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margítrekað andstöðu við aðild og fyrir síðustu kosningar var það undirstrikað og því lofað að viðræðum yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liggur í hlutarins eðli að flokkur sem stendur gegn aðild mun hvorki leiða viðræður né eiga frumkvæði að því að efnt sé til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald þeirra.

Í viðtali við Stöð 2 í ágúst 2011 var Bjarni Benediktsson afdráttarlaus. Hann vildi að umsóknin um ESB-aðild yrði dregin til baka enda hefði sérstaklega tvennt komið til sögunnar frá því að umsóknin var lögð fram:

„Í fyrsta lagi að mönnum hefur orðið það ljóst hér heima að við höfum nóg með okkar eigin mál. T.d að ná saman fjárlögum til að eiga fyrir ríkisútgjöldum. Svo eru hlutir að gerast í Evrópusambandinu sem gera það mun minna eftirsóknarvert en áður að ganga inn í þetta samstarf. Það er ljóst að Evrópusambandið er núna örum skrefum að þróast í átt til þess að verða meira sambandsríki þar sem hvert og eitt aðildarríki þarf að gefa eftir af sínu forræði á sviði ríkisfjármála inn í miðstýringuna í Brussel. Það finnst mér vera mjög slæm þróun. Eflaust er hún nauðsynleg fyrir þau ríki sem standa að baki evrunni en það er nauðsynlegt fyrir okkur að standa fyrir utan þetta samstarf.“

Fréttamaður Stöðvar 2 spurði síðan hvort Bjarni myndi beita sér fyrir því að aðildarumsóknin yrði dregin til baka ef það væru kosningar á morgun og Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í ríkisstjórn. Svarið var skýrt og einfalt: „Já, ég myndi gera það.“

Bjarni hefur staðið við orð sín.