Farþegar sem fara til og frá Kelfavíkurflugvelli ganga út frá því að öryggismál flugvallarins séu í góðu lagi. Ein forsenda þess að hægt sé að halda uppi öflugi millilandaflugi frá Íslandi er að öryggi farþega og áhafna sé tryggt. Nú hefur komið í ljós að svo er ekki. Alvarlegar brotalamir hafa komið í ljós. Tveir menn komust inn í flugvél Icelandair sem var á leið til Kaupmannahafnar og föndu sig á salerni vélarinnar.

Fyrirtækið Isavia hefur yfirumsjón með öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli. Talsmenn fyrirtækisins hafa ekki upplýst um hvernig mennirnir tveir komust í gegnum öryggisgæslu sem farþegar hafa talið fram að þessu að sé örugg. Málið er í rannsókn en mennirnir tveir hafa áður komið við sögu lögregluyfirvalda, en þeir komu til landsins sem hælisleitendur og héldu því fram að þeir væru börn að aldri en síðar kom í ljós að þeir lugu til um aldur sinn.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra segir að fara verði fram sjálfstæð rannsókn á því hvernig mönnunum tókst að komast um borð í vélina. Í pistli á Evrópuvaktinni segir Björn:

“Ekki hefur verið greint frá því hvernig mönnunum tókst að laumast um borð í vélina. Að slíkt skuli hægt er áfall fyrir þá sem gæta öryggis á flugvellinum og hlýtur að kalla á sjálfstæða rannsókn. Allir venjulegir farþegar verða að fara í gegnum öryggishlið og síðan sæta skoðun farseðla áður en gengið er um borð í flugvél. Þá gilda reglur um öryggisvottun um þá sem starfa á flugvellinum í samræmi við alþjóðareglur. Atvik eins og það sem hér er lýst getur hæglega spillt áliti íslenskra yfirvalda í alþjóðlegu samstarfi. Isavia sem ber ábyrgð á þessim þætti í starfsemi Keflavíkurflugvallar verður að gera hreint fyrir sínum dyrum.”

Athygli vekur að mönnunum var sleppt eftir að lögregla tók af þeim skýrslu. Þeir dveljast nú á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ.

Ómar Ragnarsson segir á bloggsíðu sinni að allir þekki öryggisgæsluna í millilandaflugi:

“Margskoðaðir passar og farseðlar, gegnumlýsingar, fatafækkanir, tyggjóklístur fjarlægð undan skóm o. s. frv.”

Ómar segist hafa farið um Reykjavíkurflugvöll í bráðum hálfa öld og þurft að fara á sérstakt námskeið á tveggja ára fresti, svo sér sé “persónulega treyst til að snúa lykli í einu hliði vallarins til að komast í og frá smáflugvél”:

“Síðan gerist það bara rétt si svona að tveir erlendir strákar, væntanlega dökkir á hörund, sem erfitt er að tala við vegna málleysis þeirra, ganga óhindrað um borð í millilandaflug á Keflavíkurflugelli eins og ekkert sé.

Hvernig má það vera? Öll öryggisatriðin sem við kynnumst svo vel, svo og námsefnið á námskeiðunum sem ég verð að fara á til þess að teljast hæfur til að snúa einum lykli í hurð við Reykjavíkurflugvelli, eru í samræmi við strangar erlendar kröfur, settar fram af færustu öryggissérfræðingum heims, væntanlega með CIA að bakgrunni eftir 11. september 2001.

Samt ganga þessir tveir erlendu piltar út og inn í Leifsstöð alla leið út í millilandaþotu án þess að nokkuð finnist athugavert við það.

Eitt elsta og áhrifaríkasta trixið í hernaði og glæpum er að beita blekkingum, sigla undir fölsku flaggi meðal annars með því að dulbúast.

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Niðurlönd 10. maí 1940 og einnig í innrásinnni Barbarossa inn í Sovétríkin voru sumir hermenn Þjóðverja í búningum herja andstæðinganna og rugluðu þá þannig í ríminu.

Sagt er að erlendu strákarnir hafi klæðst í föt starfsmanna í Leifsstöð. Hvernig komust þeir yfir þá?

Eða saumuðu þeir þá sjálfir? Eða keyptu þá bara í búð?

Maður hefði haldið að eftir árþúsunda reynslu af blekkingum og dulbúningum myndi kerfi, hannað af færustu öryggissérfræðingum og leyniþjónustumönnum heims gera ráð fyrir að þessu gamalkunna bragði.

En svo virðist ekki vera. Hinu getum við treyst að áfram verði þaulleitað á okkur og skilríki skoðuð margsinnis þegar við, sem aldrei gerum neitt af okkur, förum um Leifsstöð.

Og vei þeim, sem hefur stigið óvart á tyggjóklessu á leiðinni inn án þess að taka eftir því.”

Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir jafnframt flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu, sem er eitt það stærsta í heiminum. Þetta kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins. Þar segir einnig að eitt af hlutverkum sé að “tryggja að flugöryggi sé í samræmi við viðurkenndar alþjóðlegar öryggiskröfur og aðferðir”. Hjá móðurfélagi Isavia starfa um 630 manns. Auk þess starfa hjá dótturfélögum tæplega 130 manns hjá Fríhöfninni og um 30 hjá Tern. Þá segir einnig:

“Isavia vill tryggja að flugöryggi sé í samræmi við viðurkenndar öryggiskröfur og aðferðir, að flugvernd sé fullnægjandi og að starfsemi félagsins njóti viðurkenningar á innlendum sem alþjóðlegum vettvangi.”

Isavia ohf. var stofnað 31. janúar 2010 og er opinbert hlutafélag og er ríkissjóður eini hluthafinn.