Í liðlega fjögur ár hafa áróðursmeistarar fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu haldið því fram að í gangi hafi verið sérstakar samningaviðræður milli Íslands og Evrópusambandsins. Þannig er gefið í skyn að Íslendingar geti samið um breytt regluverk Evrópusambandsins og úr samningaviðræðunum komi sérsniðinn og einstakur samningur um aðild.

Um miðjan janúar á liðnu ári ákvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að setja aðildarviðræðurnar við ESB á ís – gera á þeim hlé. Ákvörðunin var sveipuð mörgum orðum en tekin í aðdraganda kosninga þar sem stjórnarflokkarnir biðu afhroð. Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin, sem knúði fram samþykki Alþingis fyrir aðildarumsókn, gafst upp á verkefninu sem átti að taka nokkur misseri að klára.

Samkvæmt upplýsingum á vef utanríkisráðuneytisins, tæplega mánuði áður en ákveðið var að setja viðræðurnar á ís, var árangurinn ekki mikill. Aðeins var búið að ljúka viðræðum um 11 kafla í löggjöf Evrópusambandsins. Viðræður stóðu yfir um 16 kafla, búið var að móta samningsafstöðu Íslands í tveimur köflum en viðræður ekki hafnar, en samningsmarkmið voru ekki tilbúin í fjórum köflum, þar á meðal um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Hagsmunamál sátu á hakanum

Langmikilvægustu hagsmunamál Íslendinga sátu því á hakanum í öllum viðræðunum. Það þjónaði ekki pólitísku markmiði Samfylkingarinnar og aðildarsinna, að ná niðurstöðu í upphafi um mikilvægustu málin. Sú niðurstaða hefði aldrei verið og verður aldrei samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Mestu skipti fyrir Samfylkinguna að halda ESB-draumnum á lífi – á honum hefur tilvera flokksins verið byggð á síðustu árum.

Forystumenn síðustu ríkisstjórnar gerðu sér grein fyrir því að viðræðurnar við Evrópusambandið væru ekki samningaviðræður um breytingar á lagabálkum sambandsins og sérákvæðum fyrir Ísland. Viðræðurnar snérust fyrst og síðast um aðlögunartíma Íslands að öllu regluverki Evrópusambandsins eða eins og segir á upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins:

„Hvor aðili um sig, umsóknarríkið og ESB, hafa sín samningsmarkmið og af hálfu umsóknarríkis snúa þau vanalega fyrst og fremst að því að fá að njóta ákveðins sveigjanleika við að taka upp lög og stefnumið ESB.“

Ljón í veginum

Í skýrslu Evrópuþingsins í apríl 2011 var umsókn Íslands fagnað en bent á að nokkur ljón stæðu í veginum: Icesave, hvalveiðar (sem eru bannaðar af ESB), og löngun Íslendinga til að verja sjávarútveg og landbúnað. Evrópuþingið hvatti Íslendinga til að laga lög um fiskveiðar að reglum innri markaðar Evrópusambandsins, meðal annars á sviði fjárfestinga. En jafnframt var bent á að Ísland hefði farið fram á að halda „hluta“ [some control ] af stjórnun fiskveiða.

Aðeins tvær skýringar eru á því að Evrópuþingið taldi að Íslendingar óski aðeins eftir að halda „hluta“ af stjórnun fiskveiða en ekki fullum yfirráðum. Annaðhvort misskildu þingmenn Evrópuþingsins aðildarumsóknina (og þar með hefur umsókn Íslands verið byggð á misskilningi) eða að fyrrverandi ríkisstjórn kom ekki hreint fram hvorki gagnvart Evrópusambandinu eða íslenskum almenningi.

Viðræður um sveigjanleika

Aðildarviðræðurnar snúast ekki um annað en ákveðinn „sveigjanleika við að taka upp lög og stefnumið ESB“. Samningurinn sem er í boði er samningur um sveigjanleika (tímalengd aðlögunar) en ekki sérsniðinn aðildarsamningur fyrir Ísland um alla framtíð.

Fáir ættu að vita þetta betur en íslenskir baráttumenn ESB-aðilar. Engu að síður er þess krafist að haldið skuli áfram og að minnsta kosti verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Þar láta þeir hæst sem börðust gegn því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland ætti að óska eftir aðild að Evrópusambandinu.

ESB-sinnar telja það betur fallið til árangurs að klæðast nú búningi „viðræðusinna“, þó að markmiðið sé eftir sem áður það sama hjá flestum: Að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.

Góður meirihluti á Alþingi

Þegar landsmenn gengu að kjörborði í apríl síðastliðnum var öllum ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn væru andvígir aðild að Evrópusambandinu, Samfylkingin berðist enn fyrir aðild, Vinstri grænir væru klofnir (enda fóru orð og gjörðir síðustu ára ekki saman), Björt framtíð væri einhvers konar „kíkja-í-pakkann-flokkur“ og Píratar vildu opið og gagnsætt viðræðuferli.

Ríkisstjórn sem er andvíg aðild að Evrópusambandinu getur aldrei staðið í viðræðum um inngöngu í sambandið. Slík vinnubrögð væru lítilsvirðing við Evrópusambandið. Þegar meirihluti þings og þjóðar er andvígur aðild að Evrópusambandinu er það ekki aðeins tímaeyðsla að standa í viðræðum um sveigjanleika við upptöku laga, heldur dregur það úr trausti og trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi. Einmitt þess vegna var það skynsamlegt af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að gera hlé á viðræðunum og snúa sér að mikilvægari og brennandi verkefnum.

En nú er kominn tími til að binda enda á viðræðurnar með formlegum hætti. Til þess er góður meirihluti á Alþingi.