Leiðtogar Samfylkingar og Vinstri grænna eiga erfitt. Þeir virðast sætta sig illa við að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynni róttækar aðgerðir í skuldamálum heimilanna, aðeins sex mánuðum eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum af vinstri stjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg.

Skuldamál heimilanna þvældust fyrir vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í meira en fjögur ár. Í upphafi var því heitið að gripið yrði til róttækra aðgerða til að aðstoða skuldug heimili – að slegin yrði um þau skjaldborg.

Jóhanna Sigurðardóttir átti fund með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta 1. febrúar 2009. Eftir fundinn héldu þau blaðamannafund þar sem Jóhanna þakkaði forsetanum fyrir það traust að fela sér umboð til að mynda nýja ríkisstjórn. Verkáætlun nýrrar ríkisstjórnar væri tilbúin og síðar sama dag myndi hún kynna ráðuneyti sitt fyrir forsetanum:

„Verkefnið framundan er fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og slá skjaldborg um heimilin í landinu, þétta það öryggisnet sem heimilin búa við og við nauðsynlega þurfum á að halda á þessum tímum.“

Fyrir kosningarnar í apríl 2009 héldu Vinstri grænir landsfund og þar var sérstaklega ályktað um skuldamál og verðtryggingu:

„Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leita leiða til að lækka höfuðstól húsnæðislána eða frysta hluta hækkunar höfuðstóls lána vegna verðbólguskotsins. Einnig að gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar.

Ekki verði gengið lengra í innheimtu skulda en að lánastofnun leysi til sín veðsetta eign.“

Vinstri stjórnin byggði þannig upp miklar væntingar meðal landsmanna. Forsætisráðherra lofaði sérstakri skjaldborg og Vinstri grænir vildu lækka lán eða frysta. Gefin voru fyrirheit um tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar. Sú áætlun leit aldrei dagsins ljós.

Gryfja skrifræðis og skattahækkana

Ekki skal efast um góðan ásetning vinstri stjórnarinnar. En líkt og oft áður féllu vinstri menn í gryfju skrifræðis og skattahækkana. Í stað markvissra almennra lausna var gripið til sértækra aðgerða, með tilheyrandi biðröðum, endalausum flækjum í regluverki og pappírsfargani. Vandi heimilanna var aukinn enn frekar með hærri sköttum og opinberum gjöldum.

Aðgerðir ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í skuldamálum heimilanna skiluðu ekki því sem lofað var. Dómstólar tóku verkefnið að mestu að sér. Langstærsti hluti lækkunar skulda heimilanna á síðustu árum er vegna þess að dómstólar komust að því að gengistryggðar skuldir væru í mörgum tilfellum ólöglegar. Í skriflegu svari atvinnuvegaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í lok nóvember 2012, kom fram að endurútreikningur erlendra fasteignalána banka og sparisjóðs og endurútreikningur bílalána hefðu lækkað skuldir heimilanna um 148,2 milljarða króna. Svokölluð 110%-leið sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir skilaði aðeins 46 milljarða lækkun og sérstök skuldalækkun 7,3 milljörðum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafði lítinn skilning á samhengi á milli fjárhagsstöðu heimilanna og velgengni atvinnulífsins. Samhengið milli hófsemdar í skattheimtu, öflugs atvinnulífs og aukins kaupmáttar almennings var þeim hulin ráðgáta. Þess vegna voru nær öll opinber gjöld hækkuð og því miður fylgdu mörg sveitarfélög fordæminu. Frá ársbyrjun 2009 og fram til byrjun þessa árs var lögum um tekjuskatt breytt 28 sinnum. Staðgreiðsla sem var 35,7% árið 2008 hækkaði í 37,32% til 46,22%. Allir urðu að greiða hærri skatta, þeir sem lægstu launin hafa sem og þeir sem hærra eru launaðir.

Stöðugt var þrengt að heimilunum og þeim gert erfiðara fyrir að standa undir skuldbindingum. Ráðstöfunartekjur lækkuðu vegna hækkunar opinberra gjalda, minni vinnu og lægri launa. Kreppan varð dýpri en ella, ekki síst vegna eðlislægs fjandskapar ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnulífinu.

Fleira þarf að leiðrétta

Auðvitað er hægt að hafa skilning á því að þeir sem bera ábyrgð á árum hinna glötuðu tækifæra frá árinu 2009, séu ekki kátir þegar þeir horfa á nýja ríkisstjórn taka til hendinni. Þess vegna kvarta þeir yfir að fá ekki sérstaka kynningu á aðgerðunum og leggja inn langar fyrirspurnir á Alþingi. Að horfa í eigin barm kemur ekki til greina.

Róttækar tillögur ríkisstjórnarinnar um að rétta við hlut heimilanna eru aðeins hluti af þeim verkefnum sem bíða. Með þeim er verið að leiðrétta það sem kallað er forsendubrestur vegna falls krónunnar og mikillar verðbólgu. En þá er eftir að leiðrétta annan forsendubrest sem er síst minni: Gríðarlega hækkun skatta, minni atvinnu og lægri laun. Slíkur forsendubrestur verður ekki leiðréttur nema með því að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, auka fjárfestingu og lækka skatta og opinber gjöld.

Leiðrétting á skuldum heimilanna skiptir litlu til lengri tíma ef ekki tekst að byggja upp hagvöxt og auka kaupmátt heimilanna, samhliða því að tryggja jafnvægi í búskap hins opinbera. Þetta á borgaraleg ríkisstjórn að skilja, þó þessi einföldu sannindi hafi verið hulin vinstri mönnum.