Fyrir síðustu alþingiskosningar voru stjórnmálamenn uppteknir af því að boða lausn á skuldavanda heimilanna. Slíkt var eðlilegt og nauðsynlegt en því miður varð það til þess að flestir gleymdu eða leiddu lítið hugann að því að til er annar skuldavandi en beinn skuldavandi heimilanna.

Skuldsetning ríkissjóðs og himinháar vaxtagreiðslur eru að lama íslenskt efnahagslíf og hamla getu ríkisins til að veita þá þjónustu sem ætlast er til að veitt sé.

Við Íslendingar stöndum frammi fyrir tveimur kostum:

Við getum ákveðið að hefja umfangsmikla sölu eigna ríkisins og greitt niður skuldir, lækkað þar með vaxtagreiðslur og nýtt fjármunina sem sparast til að byggja upp heilbrigðis- og menntakerfið og lækkað skatta.

Eða:

Við getum tekið ákvörðun um að eiga áfram fyrirtæki, fasteignir, jarðir og fleira, reynt að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs, sætt okkur við gríðarlegar vaxtagreiðslur en vonast til að hægt verði að lækka skuldir hægt og bítandi. Þar með erum við sammála um að skattar verði hærri en ella, ekki verði hægt að reisa heilbrigðiskerfið við með þeim hætti sem við teljum nauðsynlegt og að möguleikar til sóknar í menntamálum verði takmarkaðir.

24 milljónir á fjölskyldu

Í lok septembers síðastliðins námu heildarskuldir ríkissjóðs 1.932.752 milljónum króna eða 108% af áætlaðri landsframleiðslu. Þetta jafngildir því að hver fjögurra manna fjölskylda skuldi tæplega 24 milljónir króna. Lækkun skulda ríkissjóðs skiptir því landsmenn gríðarlega miklu og fátt mun hafa meiri áhrif á lífskjör á komandi árum. Á liðnu ári námu vaxtagjöld ríkissjóðs liðlega 86 milljörðum króna eða um 14% af útgjöldum. Þetta jafngildir liðlega einni milljón króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Frá árinu 2008 hafa íslenskir skattgreiðendur þurft að standa undir liðlega 494 milljörðum króna í vexti miðað við áætlun þessa árs. Með öðrum orðum: Vaxtagreiðslur ríkisins á þessum árum hafa numið sex milljónum króna á hverja fjölskyldu.

Ungt fólk horfir á að óhófleg skuldasöfnun rýrir lífskjör þess í framtíðinni. Fyrir tugþúsundir ungra karla og kvenna, sem koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum, er það ekki sérstaklega eftirsóknarvert að eiga hlut í banka eða öðrum fyrirtækjum í gegnum sameiginlegt eignarhald ríkisins, ef eignarhaldið er greitt í formi verri lífskjara – með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera. Ungt fólk hefur ekki áhuga á að bera þungan skuldabagga stóran hluta lífsins – jafngildi heillar íbúðar.

Þeir sem eldri eru og vita að þeir þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda hafa réttmætar áhyggjur. Á sama tíma og ríkissjóður greiðir á hverju ári nær tvöfalt hærri fjárhæð í vexti en til rekstrar Landspítalans verða möguleikar til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins takmarkaðir og ekki þeir sem allir vilja.

Hvítbók um sölu eigna

Á komandi mánuðum er mikilvægt að fram fari hreinskiptin umræða um stöðu ríkissjóðs og hvernig hægt er að lækka skuldir og draga þar með úr lamandi vaxtagreiðslum. Ein forsenda þess er að ríkisstjórnin láti taka saman sérstaka hvítbók um lækkun skulda ríkisins. Þar er nauðsynlegt að bera saman þá kosti sem Íslendingar standa frammi fyrir og bent var á hér að ofan. En einnig þarf að fylgja með ítarleg úttekt á þeim fyrirtækjum og öðrum eignum sem til greina kemur að selja.

Ef ráðist verður í umfangsmikla sölu eigna er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að tryggt sé að allar tekjurnar renni óskiptar til að greiða niður skuldir. Með markvissri og skynsamlegri sölu ríkiseigna er hægt að lækka vaxtagreiðslur ríkisins á kjörtímabilinu um allt að 35-40 milljarða króna á ári og þá er ekki tekið tillit til þess að lánshæfismat ríkissjóðs styrkist verulega sem aftur tryggir enn lægri vaxtakostnað.

Þegar valið stendur á milli þess að eiga ríkisbanka eða auka möguleika ríkisins til að standa undir öflugu velferðar- og menntakerfi, er auðvelt að komast að niðurstöðu. Mikill meirihluti landsmanna mun styðja slíkt. Með sama hætti og landsmenn munu styðja sölu á Isavia og helmingshlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna sem dæmi séu nefnd.

Með stuðningi almennings getur ríkisstjórnin lagt í þann mikilvæga leiðangur að lækka skuldir ríkisins með sölu eigna og treyst þannig undirstöður velferðarkerfisins um leið og skattar eru lækkaðir enn frekar. Efnahagslífið eflist, ríkissjóður fær auknar tekjur og lífskjörin batna.

Hinn kosturinn er að gera ekkert en vona það besta: „Þetta reddast.“