Með skipulegum hætti hefur andstæðingum Sjálfstæðisflokksins tekist að telja mörgum trú um að konur eigi sérstaklega erfitt uppdráttar innan flokksins. Fjölmiðlungar éta sumir upp staðlausa stafi og jafnvel trúnaðarmenn sjálfstæðismanna falla flatir fyrir pólitískri rétthugsun og trúa því að konur eigi á brattann að sækja.

Strax daginn eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík síðastliðinn laugardag var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna búinn að kveða upp sinn úrskurð. Niðurstaða prófkjörsins (þrír karlar í efstu sætunum) væri vonbrigði, kjörstjórn hlyti að breyta listanum og jafna kynjahlutföllin enda væru „það ekki bara konur sem eru óánægðar með þessa niðurstöðu heldur sjálfstæðisfólk almennt í Reykjavíkurborg“.

Fyrsta fórnarlambið

Innan við sólarhring var sem sagt ljóst að „sjálfstæðisfólk almennt“ væri óánægt. Fullyrðingin minnti óþægilega á yfirlýsingu forystukonu Bjartrar framtíðar og áður Besta flokksins um að það væri „skelfilegt“ að karlar væru í þremur efstu sætum. Þannig er það „skelfilegt“ að fimm þúsund flokksmenn kjósi með þessum hætti en fullkomlega eðlilegt að fámenn klíka Besta flokksins hafi valið þrjá karla í efstu sætin fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Orð eins og glerhús, loddaraskapur, blekking, skinhelgi og hræsni koma upp í hugann. Í pólitískri orrahríð verða staðreyndir oft fyrsta fórnarlambið. Það er rangt að halda því fram að konur hafi farið illa út úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni. Þvert á móti. Konur skipa fjögur af átta efstu sætunum og fimm af tíu. Í 11. sæti er kona.

Kröftugar konur ruddu brautina

Sú fullyrðing að konur eigi erfitt uppdráttar innan Sjálfstæðisflokksins stenst litla skoðun. Í sex síðustu prófkjörum í Reykjavík hefur konum vegnað ágætlega og þrisvar sinnum hafa kynjahlutföllin verið jöfn í tíu efstu sætunum og tvisvar hefur kona verið kjörin í efsta sætið. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2010 hlaut Hanna Birna Kristjánsdóttir ótrúlegan stuðning eða 91,7% atkvæða og 84% í fyrsta sætið. Þennan stuðning fékk Hanna Birna ekki vegna þess að hún er kona heldur vegna þess að hún nýtur trausts og trúnaðar sjálfstæðismanna.

Hitt er rétt að konur hafa þurft að hafa fyrir hlutunum innan Sjálfstæðisflokksins líkt og í öðrum stjórnmálaflokkum. Í fyrsta prófkjöri flokksins árið 1970 var t.d. aðeins ein kona meðal tíu efstu. En kröftugar konur ruddu brautina. Auður Auðuns, Ragnhildur Helgadóttir og Elín Pálmadóttir, svo nokkrar af fjölmörgum konum séu nefndar, sóttu ekki fram í stjórnmálum vegna þess að þær væru konur heldur vegna þess að þær voru öflugir stjórnmálamenn með skýrar skoðanir. Hið sama á við um þær konur sem hafa á síðustu árum haslað sér völl á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og skipa nú forystusveit flokksins.

Það er fráleitt að halda því fram að niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi hafi verið áfall fyrir konur og baráttu kvenna. Raunar má leiða rök að því að málefni hafi ráðið mestu um niðurstöðuna. Fyrir utan að vera karlar eiga þeir þrír sem hlutu kosningu í efstu sætin eitt sameiginlegt; þeir vilja að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað. Þær tvær konur sem sóttust eftir oddvitasætinu eru því ósammála.

Kynjaskiptin ekki áhyggjuefni

Kynjaskipting á framboðslista er ekki helsta áhyggjuefni sjálfstæðismanna í Reykjavík (og raunar um allt land) heldur slök þátttaka í prófkjörinu. Þó að um helmingi fleiri hafi kosið á laugardaginn en kusu í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir ári vegna alþingiskosninga, eiga sjálfstæðismenn ekki að sætta sig við þátttökuna. Og jafnvel sú staðreynd að þátttakan hafi verið nær átta sinnum meiri en í forvali Vinstri grænna í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar er engin huggun.

Dræm kjörsókn er vísbending um slaka stöðu Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni og staðfesting á niðurstöðum skoðanakannana undanfarna mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð að fóta sig að nýju í Reykjavík.

Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 33,6% atkvæða og var niðurstaðan mikil vonbrigði. Alls kusu 20.006 Reykvíkingar flokkinn. Þátttakan í prófkjörinu á laugardaginn var tæplega 25% af kjósendum flokksins í kosningunum 2010. Til samanburðar má benda á að fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1978, þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti í fyrsta skipti meirihlutann í Reykjavík, var hlutfall þeirra sem kusu í prófkjöri 40,2% af fylgi flokksins í kosningunum fjórum árum fyrr. Ef hlutfall kjósenda hefði verið það sama síðasta laugardag og 1978 hefðu liðlega átta þúsund átt að greiða atkvæði en ekki fimm þúsund. Árið 1978 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 47,4% atkvæða.

Mikið og erfitt verk bíður sjálfstæðismanna í Reykjavík líkt og slök þátttaka í prófkjörinu sýnir. Þeir geta hafist handa við endurreisnina eða flækt sig í net pólitískrar rétthugsunar sem andstæðingar hafa lagt. Úrslitin í kosningunum í vor ráðast ekki síst af því hvor valkosturinn verður valinn.