Það hefur verið nokkuð skondið að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Formaður Vinstri grænna kvartar helst yfir því að ekki sé búið að „kostnaðargreina“ tillögurnar sem miða að því að ná fram tuga milljarða sparnaði. Þingflokksformaður Bjartrar framtíðar heldur því fram að óeðlilegt sé að þingmenn stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd hafi ekki fengið kynningu á tillögunum áður en þær voru birtar.

Þannig forðast forystumenn stjórnarandstöðunnar að ræða eða gagnrýna efnislega það sem hagræðingarhópurinn hefur lagt fram. En fréttastofa Ríkisútvarpsins lagðist í sérstaka rannsókn og komst að þeirri niðurstöðu að „orðin kanna og skoða koma fyrir 58 sinnum í tillögunum“. Þetta taldi fréttastofan af einhverjum ástæðum „athyglisvert“.

Vonandi verður umræðan um tillögur eða hugmyndir hagræðingarhópsins ekki sama marki brennd á komandi vikum. Það er of mikið í húfi fyrir alla landsmenn.

Langur vegur

Flest af því sem hagræðingarhópurinn leggur til eða vill að verði kannað er til framfara en það er langur vegur að tillögurnar nái yfir allt í rekstri ríkisins eða skipulagi þess. Þetta á jafnt við um hið smáa og hið stóra. Tillögurnar eru aðeins fyrsti áfangi. Nauðsynlegt er að þingmennirnir fjórir sem skipa hópinn haldi vinnunni áfram.

Í næsta áfanga þarf hagræðingarhópurinn að huga að hinu stóra án þess að gleyma hinu smáa eins og afnámi ríkisrekstrar stjórnmálaflokkanna. Mér segir svo hugur að innan hagræðingarhópsins njóti sú hugmynd fylgis en stjórnmálaflokkarnir hafa fengið 1,2 milljarða úr ríkissjóði á síðustu fjórum árum fyrir utan framlög til þingflokka. Fjárlagafrumvarp komandi árs gerir ráð fyrir 262 milljónum til flokkanna.

Samkeppni í menntakerfinu

Uppstokkun menntakerfisins er hluti af hinu stóra líkt og endurskipulagning heilbrigðiskerfisins. Í þeim efnum þarf hagræðingarhópurinn að fá tækifæri til að leggja fram róttækar tillögur á nýju ári. Hagræðingarhópurinn telur rétt að stytta nám til stúdentsprófs og ná þannig fram aukinni framleiðni. Menntamálaráðherra er þessu sammála. Hið sama á við um fækkun háskóla og framhaldsskóla. En stytting náms og fækkun skóla getur vart verið markmið í sjálfu sér. Mesti sparnaðurinn og mesta arðsemin felst í því að auka gæði náms á öllum skólastigum þannig að nemendur fái fleiri og fjölbreyttari möguleika til menntunar og starfa. Ekkert tryggir gæði og hagkvæmni betur en samkeppni. Þær skólastofnanir sem bjóða ekki upp á gott nám verða undir í samkeppninni og leggja upp laupana án opinberra tilskipana. Þess vegna á það að vera meginmarkmið að auka samkeppni á milli menntastofnana á öllum skólastigum, allt frá grunnskólum til háskóla.

Hagræðingarhópurinn þarf að koma með tillögur í þessum efnum í næsta áfanga vinnu sinnar. Og hér þarf ekki að finna upp hjólið. Svíar hafa innleitt ávísanakerfi – fé fylgi nemanda – og aukið þar með valmöguleika grunnskólanemenda. Gæði námsins hafa aukist, nemendur eru betur í stakk búnir til frekara náms og laun kennara hafa hækkað. Sem sagt: Allir hafa hagnast.

Ný stefna í heilbrigðismálum

Með svipuðum hætti verður að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið og nýta enn frekar kosti einkarekstrar. Hagræðingarhópurinn þarf á nýju ári að leggja fram áætlanir um stóreflingu heilsugæslunnar enda sýna allar rannsóknir að öflug heilsugæsla dregur úr heildarkostnaði við kerfið. Um leið þarf að marka nýja stefnu í heilbrigðismálum þar sem forvarnir og baráttan við lífsstílstengda sjúkdóma verður ein meginstoðin. Til að koma í veg fyrir að kostnaður við heilbrigðiskerfið fari úr böndunum í framtíðinni verður að fjárfesta í baráttunni gegn lífsstílstengdum sjúkdómum. Hagræðingarhópurinn þarf að benda á að sparnaðurinn verði ekki aðeins sýnilegur innan heilbrigðiskerfisins heldur ekki síður í félagslega tryggingakerfinu. Í hausthefti Þjóðmála benti ég á að frá árinu 1999 hefur öryrkjum fjölgað um 7.750 eða 84%. Nauðsynlegt er að huga sérstaklega að þessari þróun og finna skýringar. Ekki síst verður að athuga hvort og þá með hvaða hætti heilbrigðiskerfið hefur verið vanmáttugt að veita nauðsynlega þjónustu, endurhæfingu og beita forvörnum til að koma í veg fyrir eða takmarka örorku. Ég hef haldið því fram að það yrði góð arðsemi af því að fjárfesta í heilbrigðiskerfinu með það að markmiði að fækka þeim sem þurfa að treysta á bætur frá hinu opinbera. Hér eru ekki aðeins milljarðar í húfi heldur ekki síður lífsgæði fjölda einstaklinga.

Verkið er rétt hafið

Það er mikið verk óunnið en tillögurnar 111 eru góður grunnur að því sem gera þarf. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þegar byrjað að undirbúa ýmsar breytingar sem eru í takt við tillögur hagræðingarhópsins. Það gefur góð fyrirheit. Eitt er að leggja fram skynsamlegar tillögur og hugmyndir um sparnað, hagræðingu og jafnvel uppskurð í rekstri og skipulagi ríkisins og annað að tryggja framgang þeirra. Það væri því fráleitt af stjórnarflokkunum að líta svo á að verki hagræðingarhópsins sé lokið. Verkið er rétt að hefjast.