Enginn sanngjarn maður getur haldið því fram að jafnræði og heilbrigð samkeppni ríki á fjölmiðlamarkaði. Sumum finnst að þannig eigi það að vera og að nauðsynlegt sé að tryggja ríkinu forskot í samkeppni við einkaaðila.

Í hugum þeirra sem leggja áherslu á ríkisfjölmiðlun er nauðsynlegt að öflug skjaldborg sé um Ríkisútvarpið til að verja það sem best gegn samkeppni frá einkaaðilum. Rökin fyrir ríkisrekstrinum hafa verið mismunandi, en þau eru flest orðin haldlítil. Reynslan sýnir að einkareknir ljósvaka- og netmiðlar sinna öryggishlutverki betur en ríkismiðillinn. Á síðustu árum hafa einkareknar sjónvarps- og útvarpsstöðvar sýnt meiri metnað, frumkvæði og frumleika í innlendri dagskrárgerð en ríkisfyrirtækið sem þó er ætlað að „leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð“.

Þrátt fyrir ójafna stöðu hafa einkaaðilar þannig siglt fram úr ríkismiðlinum, sem nýtur þvingaðrar forgjafar frá skattgreiðendum og ótakmarkaðra möguleika á auglýsingamarkaði. Sú spurning er áleitin hvort innlend fjölmiðlun og þá ekki síst innlend dagskrárgerð væri enn meiri og fjölbreyttari ef einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar stæðu jafnfætis ríkinu í samkeppninni. Með öðrum orðum: Forréttindi Ríkisútvarpsins

– skjaldborgin um ríkisrekinn fjölmiðil – hefur leitt til þess að íslensk dagskrárgerð er fátækari en ella. Hvaða hagsmunum er verið að þjóna? Ekki hagsmunum almennings sem greiðir milljarða á hverju ári til ríkismiðilsins.

Engin hagræðingarkrafa

Þegar fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár var lagt fram fullyrtu forráðamenn Ríkisútvarpsins að gerð væri 7% hagræðingarkrafa til fyrirtækisins. Þá var vitnað til þess að ákvæði nýrra laga um ríkismiðilinn skerði möguleika hans til sölu auglýsinga. Í bréfi sem útvarpsstjóri skrifaði til starfsmanna var því haldið fram að fjárlagafrumvarpið og ný lög rýrðu tekjur fyrirtækisins um 260 milljónir króna, þrátt fyrir 319 milljóna króna aukin framlög úr ríkissjóði samkvæmt frumvarpinu. Gefið var í skyn að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins myndu lækka um 579 milljónir króna á milli ára vegna ákvæðis nýrra laga. Miðað við upplýsingar úr síðustu ársskýrslu Ríkisútvarpsins, sem hefur verið birt (2011-2012), er þetta nær þriðjungssamdráttur. Forvitnilegt væri að sjá sundurliðaða útreikninga á þessari niðurstöðu.

Fullyrðingin um að gerð sé 7% hagræðingarkrafa gagnvart ríkismiðlinum er í besta falli umdeild. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi 2014 segir í kafla um langtímaáætlun í ríkisfjármálum:

„Engu að síður er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að framlag til Ríkisútvarpsins hækki um nálægt 320 m.kr. á árinu 2014 og að engin hagræðingarkrafa verði gerð á félagið eins og flestar aðrar ríkisstofnanir.“

Réttu skilaboðin?

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tilkynnti síðastliðinn sunnudag að hann ætlaði að leggja til að hætt yrði við hækkun á ríkisframlagi (fyrir utan 104 milljónir króna vegna verðlagshækkana). Á móti yrði fallið frá takmörkun á auglýsingum.

Fallist Alþingi á tillögu menntamálaráðherra er ljóst að fáar ef nokkrar ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki fá betri meðferð hjá fjárveitingarvaldinu en Ríkisútvarpið. Þannig fær ríkismiðillinn óbreytt framlag úr ríkissjóði, verðbætt og heldur öllum möguleikum til að afla auglýsingatekna í samkeppni við einkarekna fjölmiðla. Hér verður það látið liggja á milli hluta hvort það teljist réttu skilaboðin í Efstaleiti eða til almennings sem hefur meiri áhyggjur af heilbrigðiskerfinu en meintri hagræðingarkröfu til ríkismiðils.

Einstakt tækifæri

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einstakt tækifæri til þess að leiðrétta það óréttlæti sem ríkir á fjölmiðlamarkaði. Menntamálaráðherra hefur baklandið frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í febrúar síðastliðnum. Í ályktun fundarins um menntamál er bent á hið augljósa: Fjölmiðlar eru snar þáttur í daglegu lífi fólks. Mikilvægt sé að endurskoða lög um fjölmiðla og „dregið úr afskiptum hins opinbera af frjálsum fjölmiðlum“. Eftir að lagt er til að fjölmiðlanefnd verði lögð niður segir í ályktuninni:

„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.“

Ekki er ástæða til annars en ætla að þegar sé hafin vinna við þessa stefnumörkun innan menntamálaráðuneytisins.

Verkefnið er að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla – skapa skilyrði fyrir heilbrigða og jafna samkeppni, aukna fjölbreytni og efla grósku í innlendri dagskrárgerð. Þetta er verkefni sem er hluti af enn stærra verki; að fella skjaldborgina sem vinstri stjórnin reisti um stórfyrirtækin eftir hrun viðskiptabankanna, styrkja stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hefja þar með sjálfstæða atvinnurekandann aftur upp á stall.