Beinn og óbeinn kostnaður vegna eftirlitskerfisins er á bilinu 36-40 milljarðar króna á ári. Þessu er haldið fram í greininni Hagræðing dugar ekki — uppskurður er nauðsynlegur, sem birtist í nýjasta hefti Þjóðmála en hægt er að lesa greinina í heild sinni hér. Bent er á eftirlitskostnaður sé að lokum borinn af neytendum.

Í skýrslu sem Hagfræðistofnun HÍ vann fyrir forsætisráðuneytið árið 2004 var beinn kostnaður fyrirtækja við að framfylgja eftirlitsreglum talinn nema 7,2 milljörðum króna á verðlagi ársins 2003. (Tekið var fram að líklega væri um vanmat að ræða, þar sem ekki var tekið mið af öllum eftirlitsreglum á öllum sviðum.) Þetta jafngildir 12,6 milljörðum króna á verðlegi síðasta árs.

Frá því að skýrslan var unnin hefur reglum verið fjölgað, þær hertar á flestum sviðum og eftirlit hins opinbera verið aukið, nýjum eftirlitsstofnunum verið komið á fót og eldri stofnanir styrktar. Í umræddri grein í Þjóðmálum er komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé óvarlegt að ætla að beinn kostnaður íslenskra fyrirtækja vegna opinbers eftirlits sé 18-20 milljarðar króna:

„Óbeinn kostnaður vegna minni framleiðni, lakari samkeppnisstöðu og skilvirkni er að líkindum ekki lægri fjárhæð. Vert er að hafa í huga að eftirlitskostnaðurinn er á lokum borinn af neytendum. Dýrt og flókið eftirlitskerfið hefur bein áhrif á verðlag, skuldir og tekjur launafólks. Með öðrum orðum: Íslenskur almenningur þarf að bera 36-40 milljarða króna byrðar á hverju ári til að standa undir beinum og óbeinum kostnaði við eftirlitskerfið.

Uppskurður á opinberu eftirlitskerfi, færri og einfaldari reglugerðir, styrkja hag fyrirtækja og auka möguleika til nýsköpunar. Störfum fjölgar, vöruverð lækkar og skatttekjur ríkisins aukast. Allir hagnast.”