Rekstrarkostnaður ríkisins á liðnu ári nam um 3,1 milljón króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Að teknu tilliti til fólksfjölgunar var rekstur ríkisins tvöfalt dýrari að raunvirði á síðasta ári en 1980. Þegar tekið er tillit til kostnaðar sveitarfélaganna má ætla að rekstrarkostnaður hins opinbera hafi numið um 5,5 milljónum króna á hverja fjölskyldu. Með öðrum orðum; kostnaður við rekstur hins opinbera kostaði hvert heimili að meðaltali um 450 þúsund krónur í hverjum mánuði. Árið 1980 var mánaðarlegur kostnaður innan við 180 þúsund krónur á verðlagi síðasta árs.

Litlu skiptir hvaða tölur um útgjöld hins opinbera eru skoðaðar. Sameiginlegur kostnaður landsmanna hefur hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Að raunvirði voru heildarútgjöld hins opinbera þrefalt hærri á síðasta ári en 1980. Gjöldin hækkuðu úr 34% af vergri landsframleiðslu í 46,5%. Ríki og sveitarfélög hafa þannig stöðugt tekið meira til sín.