Þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta ekki látið blekkjast. Þeir geta ekki stutt og tryggt að frumvarp forsætisráðherra um Hagstofu Íslands, verði að lögum. Með samþykkt þess verður gengið gegn grunnhugmyndum sjálfstæðisstefnunnar um friðhelgi einkalífsins og rétt einstaklinganna gagnvart ríkisvaldinu. Verði frumvarpið að lögum með stuðningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins, hljóta almennir sjálfstæðismenn að spyrja sig; fyrir hverju er barist?

Þegar þing kemur saman á morgun (þriðjudag) er frumvarp um Hagstofuna eina mál ríkisstjórnarinnar sem er til afgreiðslu. Því er haldið fram að nauðsynlegt sé að samþykkja frumvarpið til að tryggja að hugmyndir um svokallaða skuldaleiðréttingu nái fram að ganga. Ekkert er fjarri lagi. Allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir. Með blekkingum á að gefa Stóra bróður tækifæri til hnýsast í viðkvæm persónuleg málefni einstaklinga.

Í júní síðastliðnum var vakin athygli á þessu hér á T24 og meðal annars sagt:

„Að baki frumvarpi forsætisráðherra er hugmyndafræði sem gengur út frá því að ríkisvaldið hafi rétt til að vita allt um alla – borgararnir séu lítið annað en undirmenn Stóra bróður. Höfð eru endaskipti á hlutunum; ríkið er ekki til fyrir einstaklingana, heldur eru einstaklingarnir til fyrir ríkið.”

Alþingi kemur saman á morgun og samkvæmt áætlun verða sex þingdagar. Með öðrum orðum: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurfa að standa í lappirnar í tæpa viku.