„Að forgangsraða í þágu eftirlitsiðnaðarins er röng forgangsröðun. Forgangsröðunin hjá ríkinu var galin í tíð fyrri ríkisstjórnar.”

Undir þessi orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, er tekið heilshugar. Í viðtali við Fréttablaðið segist Guðlaugur Þór vilja endurskipuleggja eftirlitsiðnaðinn og ná fram hagræðingu. „Við verðum að vernda heilbrigðiskerfið, menntakerfið, félagslega öryggiskerfið og löggæsluna,” segir þingmaðurinn sem er einn fjórmenninganna í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar auk þess að eiga sæti í fjárlaganefnd.

Fréttablaðið greinir frá því að Guðlaugur Þór hafi látið taka saman heildarfjárframlög til eftirlitsstofnana ríkisins á síðasta kjörtímabili.  Samkvæmt því kostuðu eftirlitsstofnanir ríkisins 8,5 milljarða króna árið 2008 en fjórum árum síðar hafði upphæðin hækkað í rúma 11,6 milljarða, eða um 37 prósent.

Þessar tölur um kostnað við eftirlitskerfið eru þó aðeins hluti heildarkostnaðarins því hann er að stórum hluta falinn. Um þetta er meðal annars fjallað í grein sem birtist í hausthefti Þjóðmála, sem kemur út um miðjan september. Þar eru nokkrar ábendingar til hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar og meðal annars fjallað um eftirlitsstofnanir og kostnað vegna þeirra. Þar er því haldið fram að í heild sé kostnaður íslenskra heimila og fyrirtækja um 35-40 milljarðar króna á ári.

Meira í hausthefti Þjóðmála