Eitt er að leggja fram skynsamlegar tillögur um sparnað, hagræðingu og uppskurð í rekstri ríkisins og annað að tryggja framgang þeirra. Útgjaldasinnar allra flokka snúast til varnar. Margar tillögur og hugmyndir sem hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar mun leggja fram eiga (kannski eðli máls) eftir að verða umdeildar og jafnvel óvinsælar. Helsta von útgjaldasinna liggur í því að nýta sér óánægju og gagnrýni – spila á sérhagsmuni og hópa sem telja hagsmunum sínum ógnað.

Í hausthefti Þjóðmála, sem kemur út um miðjan september, er ítarleg grein þar sem undirritaður setur fram nokkrar ábendingar til hagræðingarnefndarinnar, en miklu skiptir að nefndin nái almenningi – kjósendum – skattgreiðendum – á sitt band. Með bandalagi við almenning getur hagræðingarnefndin tryggt pólitískt bakland og stuðning við róttækum hugmyndum. Ég, eins og margir fleiri, bindur vonir við að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar, undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar þingmanns Framsóknarflokksins, skili góðum árangri í starfi sínu. Í erindisbréfi segir að „að hópurinn skuli fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna“. Hagræðingarhópurinn á gera tillögur um „einstakar aðgerðir sem skila verulegri hagræðingu til framtíðar“ en ekki leggja til „flatan niðurskurð“.

Fjórmenningarnir verða að haga starfi sínu þannig að almenningur átti sig á því að hagræðing í ríkisrekstri miði að því að verja og styrkja íslenska velferðarkerfið til lengri tíma, efla menntakerfið, byggja undir löggæslu um allt land og styrkja byggðir landsins með góðum samgöngum. Markmiðið er ekki aðeins að gera ríkisreksturinn skilvirkari heldur skipuleggja  þannig að hann þjóni betur einstaklingum og fyrirtækjum. Nefndin verður að sannfæra kjósendur um að einfaldara stjórnkerfi ríkisins lækki beinan og þó ekki síður óbeinan kostnað einstaklinga og atvinnulífsins, og auki tekjur ríkisins til lengri tíma samhliða því sem ráðstöfunartekjur heimilanna hækka.

Hagræðingarnefndin á að spyrja almenning:

Hefur þjónusta ríkisins við heimili og fyrirtæki batnað á síðustu árum í réttu hlutfalli við aukin útgjöld?

Þegar horft er á tölulegar staðreyndir um þróun ríkisútgjalda getur enginn svarað þessari spurningu játandi – jafnvel ekki harðir útgjaldasinnar.

Meira í hausthefti Þjóðmála