Eitt sinn var Páll Magnússon sannfærður um að skylduskrift að Ríkisútvarpinu væri nauðungargjald sem innheimt væri með „fógetavaldi“. Þá stóð Páll í harðri og ójafnri samkeppni við ríkið. Hann sakaði Ríkisútvarpið um að stunda óheiðarlega samkeppni, beita undirboðum á auglýsingamarkaði og vinna gegn Stöð 2 með „lúalegum hætti“.

En síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í texta vinsæls dægurlags. Nú er Páll Magnússon útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Hann er áægður með sinn hlut og hvernig til hefur tekist í rekstri stofnunarinnar. Þrátt fyrir 85 milljóna króna tap á síðasta reikningsári og 3.116 milljónir króna í „nauðungargjöld“ er útvarpsstjóri sannfærður um að tekist hafi vel til. Ekki er lengur rætt um „nauðungargjöld“ heldur þjónustutekjur og Ríkisútvarpið er orðið að RÚV samkvæmt ákvörðun í Efstaleiti.

Hallar undan fæti

Páll Magnússon sá ástæðu til að gera athugasemdir við skrif undirritaðs (17. júlí) um þann vanda sem blasir við í rekstri hins opinbera hlutafélags sem er um Ríkisútvarpið. Í grein hér í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag viðurkennir Páll að tölur um afkomu Ríkisútvarpsins frá því að hið opinbera hlutafélag tók til starfa (1.269 milljóna króna tap á verðlagi síðasta árs) séu réttar. Útvarpsstjóri heldur því hins vegar fram að undirritaður dragi rangar ályktanir af tölunum með því að fullyrða að Ríkisútvarpinu sé að blæða út.

„Síðustu þrjú árin, frá 2009, hefur rekstur RÚV verið í góðu jafnvægi – með hagnað upp á 45 milljónir króna að meðaltali á ári,“ skrifar Páll Magnússon en hirðir ekki um að benda á hið augljósa:

Frá reikningsárinu 2009/2010 – þegar afkoman var þokkaleg – hefur hallað undan fæti. Það ár var hagnaður tæpar 206 milljónir króna, en árið eftir varð aðeins liðlega 16 milljóna króna afgangur. Á síðasta reikningsári versnaði staðan enn frekar. Rúmlega 85 milljóna króna tap varð á rekstrinum.

Afkoma og veltufé RÚV

Þjáning meðaltalsins

Ef miðað er við þessi þrjú ár, líkt og útvarpsstjóri vill gera, verður ekki hægt að draga aðra ályktun en að stöðugt halli undan fæti hjá hinu opinbera hlutafélagi og að óbreyttu muni ríkisfyrirtækinu blæða út. Þessi ályktun fær enn frekari stuðning þegar litið er til þess að veltufé frá rekstri hefur minnkað um nær helming frá 2009.

Meðaltalsútreikningur útvarpsstjóra og röksemdir minna á karlinn sem hafði annan fótinn í ísköldu vatni og hinn í brennandi heitu og hafði það að meðaltali nokkuð gott. Þó var hann kvalinn á báðum fótum.

Svarar ekki gagnrýni

Ágreiningur minn við Pál Magnússon snýr ekki aðeins að því hvort vel eða illa hafi tekist til í rekstri ríkisfyrirtækis sem rekið er með „nauðungargjöldum“ og í samkeppni við einkaaðila á auglýsingamarkaði. Deilan snýr ekki síður að því hvernig farið er með þá gríðarlegu fjármuni sem renna til Ríkisútvarpsins á hverju ári. Páll Magnússon hefur lítinn áhuga á að svara slíkri gagnrýni.

Útvarpsstjóri vill halda áfram á sömu braut og reka umfangsmikið ríkisfyrirtæki. Sá er þetta skrifar telur hins vegar rök fyrir því að til verði lítil stofnun sem hefði það fyrst og fremst að markmiði að kaupa efni af íslenskum kvikmynda- og dagskrárgerðarmönnum, lista- og fræðimönnum – raunar öllum sem hafa áhuga og getu. Þannig yrði þúsundum milljóna króna varið til kaupa á íslensku útvarps- og sjónvarpsefni. Íslenskt lista- og menningarlíf fengi öfluga vítamínsprautu og fjölbreyttari raddir og skoðanir fengju farveg á ljósvaka ríkisins.

Veit útvarpsstjóri svarið?

„Til hvers í ósköpunum er ríkið að halda úti afþreyingarrás á borð við Rás 2, þegar sprottið hafa upp frjálsar stöðvar sem eru að gera nákvæmlega það sama?“ spurði Páll Magnússon í samtali við Morgunblaðið árið 1990. Vert er að endurtaka þessa spurningu og kannski veit útvarpsstjóri svarið. Ef til vill svarar Páll Magnússon spurningunni og mörgum fleirum á sérstöku opnu útvarpsþingi, sem Ríkisútvarpinu er skylt að halda á hverju ári samkvæmt þjónustusamningi við ríkið frá 2011.

Á útvarpsþingi á meðal annars að ræða um „starfsemi Ríkisútvarpsins, hlutverk útvarps í almannaþágu og um hugmyndafræði þess“. Því miður er engar upplýsingar að finna um hið árlega útvarpsþing á vef Ríkisútvarpsins né í sérstaklega glæsilegri ársskýrslu, – tveimur árum eftir undirritun þjónustusamningsins.

Landsmenn verr settir

Páll Magnússon gerir sér grein fyrir því að ekki er hægt að reka Ríkisútvarpið með tapi eða eins og hann segir í inngangi síðustu ársskýrslu:

„Taprekstur gengur heldur ekki upp til lengdar því þá gengur á eigið fé félagsins.“

Um þessi augljósu sannindi erum við Páll sammála. En varla getur útvarpsstjóri andmælt því að það hefur hallað undan fæti í afkomu síðustu þrjú árin. Útreikningur á meðaltölum breytir engu – þróunin er ljós. Verst er að á sama tíma hefði verið hægt að blása til stórsóknar í lista- og menningarlífi samhliða því að styrkja opna umræðu, með því að nýta gríðarlega fjármuni betur en gert hefur verið.

Skipulag og starfsemi umfangsmikillar stofnunar í Efstaleiti hefur því gert landsmenn verr setta og fátækari en annars.