Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, verður seint sökuð um að vera samkvæm sjálfri sér. Þegar það hentar pólitískum markmiðum er hún fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum en berst síðan gegn því að almenningur fái að segja sitt, ef flokkshagsmunir krefjast. Lilja Rafney hefur skipað sér í hóp þeirra sem kjósa að fylgja pólitískri hentistefnu í þeirri von að ná trúnaði kjósenda.

Í desember 2009 tók Lilja Rafney þátt í því, ásamt félögum sínum í vinstri stjórninni [sem kenndi sig við velferð], að samþykkja ríkisábyrgð á einkaskuldum – Icesave-skuldum Landsbankans. Hún lét ekki þar við sitja heldur greiddi atkvæði gegn tillögu Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að lögin yrðu borin undir þjóðaratkvæði. Þá höfðu yfir 42 þúsund manns skrifað undir áskorun InDefence-hópsins um að hann staðfesti ekki lögin um ríkisábyrgð. Fleiri áttu eftir að skrifa undir því alls voru forsetanum afhent áskorun frá liðlega 56 þúsund kjósendum.

Að kvöldi 30. desember 2009 þegar Lilja Rafney sat í þingsal, felldi tillögu um þjóðaratkvæði og samþykkti ríkisábyrgð á Icesave, stóð hópur fólk fyrir framan þinghúsið með rauð neyðarblys.

Svo fór að forsetinn synjaði Icesave-lögunum og í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2010 sögðu 98% nei við ríkisábyrgð.

Að hlusta og hlusta ekki

Það hentaði ekki pólitískum hagsmunum Vinstri grænna að hlusta á tug þúsundir kjósenda í desember 2009, enda höfðu fyrstu samningarnir um Icesave verið leiddir af Svavari Gestssyni og á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar, þá fjármálaráðherra. Í átökum um veiðigjöld eru hagsmunirnir aðrir og Vinstri grænir komnir í stjórnarandstöðu. Því telur Lilja Rafney rétt að taka tillit til undirskrifasöfnunar gegn lögum um veiðigjöld. Í samtali við mbl.is segir Lilja Rafney að undirskriftasöfnunin gegn veiðigjaldalögunum hafi verið til fyrirmyndar:

„Ég tel að stjórnvöld eigi að taka mark á henni fyrst og fremst, og sérstaklega þeim þunga sem er í þessari stóru söfnun á stuttum tíma. Mér finnst að stjórnvöld eigi að hlusta á þau skilaboð sem koma frá þessum hluta þjóðarinnar sem skrifar þarna undir.“

Sem sagt: Það á að „hlusta“ á skilaboð, en þó aðeins þegar skilaboðin þjóna pólitískum hagsmunum.

Í viðtalinu við mbl.is segist Lilja Rafney ekki hafa bundið sérstakar vonir við forsetann og því átt von á því að hann myndi staðfesta lögin um veiðigjald. En hún gefi lítið fyrir rökin að baki ákvörðun forsetans:

„Mér fannst hann reyna að tína upp úr hattinum sínum þau rök sem hentuðu hans ákvörðun, en mér fannst hann vera í mótsögn við sjálfan sig.“

Lilja Rafney tekur heldur ekki mark á forsetanum þegar hann segi að veiðigjöldin séu skattur:

„Þetta fellur ekki undir lög um skatta, heldur eru þetta sérstök lög um veiðigjöld. Þetta er auðlindarenta sem er verið að innheimta.“

Að þessu sinni skal látið liggja á milli hluta hvernig rétt sé að skilgreina veiðigjöld en eitt er ljóst; innheimta þeirra eru hluti af fjárreiðum ríkisins. Í febrúar 2011 var Lilja Rafney þeirrar skoðunar að fjárreiður ríkisins eigi ekki „að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu“. Þá kom hún, ásamt félögum sínum, í annað sinn í veg fyrir að „nýir“ Icesave-samningar yrðu afgreiddir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Enn var það Pétur Blöndal sem lagði fram tillögu um að ríkisábyrgð á Icesave-samningunum yrði ekki veitt nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Við afgreiðslu Alþingis 16. febrúar gerði Lilja Rafney grein fyrir ástæðu þess að væri mótfallin þjóðaratkvæði:

„Lánasamningar, fjárreiður ríkisins og samningar um skuldaskil milli þjóða eru ekki þess eðlis að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu að mínu mati. Þar verða lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar að axla þá ábyrgð sem þeir eru kosnir til.“

Þegar pólitísk saga Lilju Rafneyjar er skoðuð er það hreint magnað að hún skuli saka forsetann um að „reyna að tína upp úr hattinum sínum þau rök sem hentuðu hans ákvörðun, en mér fannst hann vera í mótsögn við sjálfan sig“.

Það er hægt að færa rök að því að ákvörðun forsetans að þessu sinni, líkt og stundum áður, hafi verið hrein geðþóttaákvörðun. En Lilja Rafney hefur lítil efni á að gagnrýna hann fyrir að vera í mótsögn við sjálfan sig. Trúverðugleikinn eykst ekki við grjótkast úr glerhúsi.